Norðurlöndin hvetja til stillingar og friðsamlegra lausna í Mið-Austurlöndum

Stigmögnun spennu í Mið-Austurlöndum var umfjöllunarefni í sameiginlegri ræðu Norðurlanda í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir helgi þar sem hvatt var til stillingar og að friðsamlegra lausna yrði leitað. Utanríkisráðherra lýsti yfir áhyggjum af ástandinu í færslu á Twitter fyrr í mánuðinum.

Á vef utanríkisráðuneytisins kemur fram, að í umræðum um stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í öryggisráðinu á fimmtudag hafi fastafulltrúi Noregs flutt ræðu fyrir hönd Norðurlanda, Íslands þar á meðal, þar sem gildi hans var áréttað. Í ræðunni gerði norski fastafulltrúinn vaxandi spennu í Mið-Austurlöndum að umtalsefni og undirstrikaði þýðingu þess að allir aðilar yfirstandandi deilu sýndu stillingu, tækju upp viðræður og leituðu friðsamlegra lausna á ágreiningi sínum. Alþjóðasamfélagið yrði að gera það sem í valdi þess stæði til að leggja sitt af mörkum við að finna pólitíska lausn til langframa.

Fyrr í þessum mánuði ræddi Guðlaugur Þór Þórðarson ólguna í Írak í færslum á Twitter. Í færslu frá 2. janúar lýsti hann yfir áhyggjum af vaxandi spennu og illindum þar og vísaði þar sérstaklega til árása á bandaríska sendiráðið í Bagdad og á herstöðvar í landinu. Daginn eftir áréttaði utanríkisráðherra áhyggjur sínar og hvatti deilendur til að sýna stillingu og leita diplómatískra lausna til að koma í veg fyrir frekari stigmögnun. Hann sagði ennfremur að endurteknar ögranir íranskra stjórnvalda  græfu undan friði og stöðugleika í heimshlutanum.