Nöturleg mynd af bandarísku samfélagi blasir við heimsbyggðinni

„Um þessar mundir blasir við heimsbyggðinni nöturleg mynd af bandarísku samfélagi. Samfélagi þar sem þeldökkir Bandaríkjamenn eru margfalt líklegri til að lenda í fangelsi en hvítir samlandar þeirra. Þeir telja tæp 13 prósent þjóðarinnar en eru um fjörutíu af hundraði þeirra sem afplána refsidóma,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í færslu á fésbókinni í kvöld.

Hún segir skelfilegt morð á George Floyd aðeins enn eitt dæmið um síendurtekið misrétti sem eigi sér langa sögu og hafi kallað hryllilegan harm yfir heilu kynslóðirnar.

„Slík mannréttindabrot verður uppræta. Þörf er á algerri hugarfarsbreytingu. Sagan kennir okkur að vandinn einskorðast ekki við eitt og eitt skemmt epli innan lögreglunnar vestanhafs, heldur virðist það kerfislægt. Leiðtogar og stjórnmálamenn þurfa að stíga inn og vera rödd breytinga og knýja þær fram.

Við eigum fyrst og fremst að hlusta á þá sem upplifa fordóma og misrétti bæði erlendis og hérlendis, fordæma óhæfuverk og lýsa yfir stuðningi við þá sem hefja upp raust sína til að andmæla þessu ofbeldi,“ segir dómsmálaráðherra ennfremur.