„Nú ætla þeir í orkuna“

Magnús Þór Hafsteinsson fv. alþingismaður.

„Við sjáum alveg til hvers refirnir eru skornir,“ segir Magnús Þór Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Þingflokks Flokks fólksins og fv. alþingismaður, í samtali við Viljann í tilefni frétta morgunsins um að norskt orkufyrirtæki hyggi á stórfellda uppbyggingu á sviði vindorku hér á landi og byggingu svonefnda vindmyllugarða.

Magnús Þór var lengi búsettur í Noregi þar sem hann lærði sjávarútvegsfræði og var fréttaritari Ríkisútvarpsins þar um árabil. Hann segir að Norðmenn ásælist mjög íslenskar auðlindir og fullyrðir að norski utanríkisráðherrann hafi lagt íslenskum stjórnvöldum línurnar í fyrra varðandi innleiðingu þriðja orkupakkans.

„Ine Eriksen Söreide, utanríkisráðherra Noregs, var ekki hingað komin í heimsókn í ágúst í fyrra til að skoða heyrúllur þó reynt væri að láta líta út fyrir það. Ó nei. Og okkar fólk hlýddi í auðmýkt, kraup og kyssti vöndinn,“ segir Magnús Þór.

Hann segir að við Íslendingar verðum að átta okkur á hagsmunagæslu Norðmanna hér á landi og áformum þeirra til framtíðar.

„Norðmenn eru þegar búnir að sölsa undir sig bestu fiskeldissvæðin í sjó hér við land. Þeir væru löngu búnir að leggja fiskveiðarnar undir sig ef íslensk lagasetning kæmi ekki í veg fyrir það. Og nú ætla þeir í orkuna,“ segir Magnús Þór ennfremur.