Ný bylgja í veldisvexti: 38 innanlandssmit í gær og fjölmennar samkomur í uppnámi

Frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Svo virðist sem ný COVID-19 bylgja sé komin í byrjun á veldisvexti með töluverðri aukningu nýrra smita undanfarna daga, þótt stærstur hluti þjóðarinnar sé nú bólusettur. Þetta segir sóttvarnalæknir í samtali við Viljann í dag. Alls greindust 44 í gær, þar af 38 innanlands. Það er mesti fjöldi nýrra smita á einum sólarhring um margra mánaða skeið, en fjórðungur þeirra sem smituðust voru í sóttkví.

Þetta þýðir að delta-afbrigðið er komið á fleygiferð í samfélaginu, en það er meira smitandi en önnur afbrigði kórónuveirunnar og virðist einnig ná að breiðast töluvert út meðal bólusettra. Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í gær að herða aðgerðir á landamærunum frá og með næstu viku vegna þróunar faraldursins.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra um helgina, að ef þróunin verði áfram sú að smitum fjölgi, hljóti að koma til álita að herða aðgerðir innanlands. Samkvæmt heimildum Viljans eru auknar líkur á að lagt verði bann við fjölmennum útihátíðum á næstu vikum, en verslunarmannahelgin er framundan um mánaðarmótin, auk þess sem Hinsegin dagar, Menningarnótt og Reykjavíkurmaraþon eru skammt undan. Allir þessir viðburðir voru blásnir af í fyrra og gæti sú einnig orðið raunin nú.