Mannréttindamál og tvíhliða þróunarsamvinna voru í brennidepli á fundum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra með forseta og utanríkisráðherra Malaví fyrir helgi. Utanríkisráðherra opnaði nýja fæðingardeild í Mangochi-bæ sem gerbyltir fæðingarþjónustu í héraðinu.
Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra hefur undanfarna daga verið í vinnuheimsókn í Malaví til að kynna sér árangur af áratugalangri þróunarsamvinnu við þarlend stjórnvöld og opna nýja fæðingardeild í Mangochi-bæ, höfuðstað samnefnds héraðs.
Guðlaugur Þór fundaði með Peter Mutharika, forseta Malaví, og þá hitti hann einnig Emmanuel Fabiano, utanríkisráðherra landsins. Tvíhliða þróunarsamvinna Íslands og Malaví og mannréttindamál voru efst á baugi á fundunum tveimur. Utanríkisráðherra lagði í máli sínu sérstaka áherslu á kynjajafnrétti, málefni hinsegin fólks og réttindi barna. Þá ræddi Guðlaugur Þór um möguleika á því að efla viðskipti á milli Íslands og Malaví. Jafnframt var til umræðu framboð Íslands til Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.
„Við höfum átt í farsælli þróunarsamvinnu við Malaví í þrjá áratugi og á fundunum kom fram bæði mikil ánægja með samstarfið og vilji til að þróa það áfram. Við höfum líka hug á aukinni samvinnu í gegnum alþjóðastofnanir í Malaví en í því sambandi má nefna samstarf Íslands, Malaví og Alþjóðabankans á sviði jarðvarma,“ sagði Guðlaugur Þór að fundi loknum. „Auk þess áttum við mikilvægar samræður um jafnréttismál þar sem ég gat áréttað ýmislegt sem Ísland hefur fram að færa á þeim vettvangi, eins og til dæmis Barbershop-ráðstefnurnar.“
35 sérfræðingar frá Malaví hafa stundað nám við Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og hitti utanríkisráðherra nokkra þeirra síðdegis. Auk þess hefur hann átt í dag fundi með sendiherrum erlendra ríkja og yfirmönnum stofnana Sameinuðu þjóðanna í Malaví. Þá heimsótti Guðlaugur Þór aðalskrifstofu Rauða krossins í Malaví en utanríkisráðuneytið hefur stutt starfsemi samtakanna til margra ára.
Einn af hápunktum heimsóknar utanríkisráðherra til Malaví var formleg opnun fæðingardeildar í héraðshöfuðstaðnum Mangochi. Vígsluathöfnin fór fram fyrir utan nýju húsakynnin með pompi og pragt þar sem Guðlaugur Þór ávarpaði gesti.
„Formleg opnun fæðingardeildar ásamt ungbarna- og mæðraverndarstöð markar ekki einungis þáttaskil fyrir Mangochi-hérað heldur einnig íslenska þróunarsamvinnu,” sagði Guðlaugur Þór í ávarpinu.
„Búist er við að á þessu ári fæðist allt að þrjátíu þúsund börn á heilbrigðisstofnunum sem við höfum stutt við. Það er áttfaldur fjöldi þeirra barna sem fæðast árlega heima á Íslandi.“
Bygging mæðradeildarinnar í Mangochi hefur verið stærsta einstaka verkefni í þróunarsamvinnu íslenskra stjórnvalda og héraðsstjórnarinnar í Mangochi á síðustu árum. Kostnaðurinn við bygginguna ásamt tækjabúnaði nemur 250 milljónum íslenskra króna en deildin leysir af hólmi hrörlega fæðingardeild við héraðssjúkrahúsið. Á nýju deildinni verður veitt öll almenn fæðingarhjálp, þar verða meðal annars gerðir keisaraskurðir og sérstök deild er fyrir fyrirbura.
Nýja deildin er þegar tekin til starfa því fyrstu börnin komu þar í heiminn síðastliðinn mánudag. Hún þjónar öllu héraðinu, tæplega 1,2 milljónum íbúa. Undanfarin ár hafa íslensk stjórnvöld, í gegnum sendiráðið í Lilongwe, reist níu fæðingardeildir við heilsugæslustöðvar úti í sveitum héraðsins og einnig fjármagnað kaup á ellefu sjúkrabílum sem sinna ekki hvað síst barnshafandi konum sem þurfa að komast á fæðingardeild. Mæðradauði hefur minnkað verulega í Malaví á síðustu árum, eða um fjörutíu prósent frá árinu 2012.