Ný fjarskiptalög til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda

Nýju lögin eiga m.a. að auka öryggi og vernd notenda fjarskipta.

Drög að frumvarpi til nýrra laga um fjarskipti og breytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 6. janúar 2020.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins í gær.

Markmið fyrirhugaðra laga er að tryggja aðgengileg, greið, hagkvæm, skilvirk og örugg fjarskipti hér á landi. Einnig er þeim ætlað að stuðla að virkri samkeppni á fjarskiptamarkaði og auka vernd og valmöguleika neytenda. Öllum landsmönnum og fyrirtækjum verði, eftir því sem unnt er, tryggður aðgangur að fjarskiptaþjónustu og háhraðanetum. Um er að ræða heildarendurskoðun á lögum um fjarskipti frá árinu 2003 en lagt er til að ný lög taki gildi 1. janúar 2021.

Annars vegar á að koma á innri markaði fyrir fjarskiptanet og -þjónustu sem mun efla útbreiðslu og upptöku neta með mjög mikla flutningsgetu (þ.e. háhraðaneta), sjálfbæra samkeppni og auka öryggi fyrir notendur. Hins vegar að tryggja framboð af hágæðaþjónustu í Evrópu sem er öllum aðgengileg á viðráðanlegu verði.

Fólk er hvatt til að kynna sér frumvarpið og senda inn umsögn eða ábendingar ef tilefni er til fyrir 6. janúar nk.