Ný hjúkrunardeild fyrir aldraða með COVID-19

Ljósmynd: LSH.

Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Hlíðarskjól ehf. um opnun 10 rýma hjúkrunardeildar fyrir aldraða hjúkrunarsjúklinga sem smitast hafa af COVID-19. Heilbrigðisráðherra hefur staðfest samninginn. Deildin er ætluð íbúum hjúkrunarheimila sem veikst hafa af COVID-19 og þurfa tímabundið á sérhæfðri þjónustu að halda svo sem í framhaldi af sjúkrahúsmeðferð.

Frá þessu er greint á vef heilbrigðisráðuneytisins. Félagið Hlíðarskjól er í eigu sjálfseignarstofnunarinnar Eirar sem rekur samnefnt hjúkrunarheimili við Hlíðarhús 7 og verður hjúkrunardeildin rekin innan veggja þess. Markmið samningsins er að tryggja covid-smituðum einstaklingum, sem búa á hjúkrunarheimilum, einstaklingsmiðaða, heildræna og örugga heilbrigðisþjónustu á sérstakri hjúkrunardeild meðan á veikindum stendur.

Rekstraraðilar og starfsfólk hjúkrunarheimilisins Eirar hafa reynslu af þjónustu við aldraða sem veikst hafa af COVID-19 og sinntu um tíma fimm sjúklingum sem voru saman á einingu meðan á veikindum stóð. Í samningnum er gert ráð fyrir að þjónusta á deildinni verði sambærileg þeirri þjónustu.

Hjúkrunardeildin er tilbúin til notkunar og tekur samningurinn gildi í dag.

Samningurinn er tímabundinn og gildir til 28. janúar 2021 með möguleika á framlengingu um 30 daga að hámarki.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir hjúkrunardeildina mikilvægan lið í því að mæta sem best þörfum aldraðra sem smitast af COVID-19, úrræðið geti reynst mikilvægt til að draga úr smithættu inni á hjúkrunarheimilum og eins skipti það máli til að létta álagi af Landspítala.