Ný könnun staðfestir stórsókn Miðflokksins á kostnað Sjálfstæðisflokks

Rúmlega fimmtungur þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í alþingiskosningunum 2017 mundu nú kjósa Miðflokkinn. Ný könnun Zenter rannsókna, sem Fréttablaðið birtir í dag, staðfestir mikið fylgistap Sjálfstæðisflokksins og stórsókn Miðflokksins, sem könnun MMR hafði gefið í skyn á dögunum.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærsti flokkurinn með 20,5% fylgi, en tapar nokkru frá síðustu könnun og miklu frá kosningum. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, segir í Fréttablaðinu að eðlilegt sé að ríkisstjórnarflokkar tapi fylgi á miðju kjörtímabili, en tíðindin séu þó ekki ánægjuefni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir við Fréttablaðið að orkupakkamálið hafi áhrif. „En kannski ekki bara út af því máli sjálfu heldur meira út af því að við viljum vera prinsippflokkur. Það sem ég vona er að menn séu að meta það við okkur að við séum flokkur sem stendur við sín prinsipp. Það birtist í orkupakkamálinu en mun gera það líka í fleiri málum.“

Miðflokkurinn er sá flokkur sem bætir mestu við sig frá könnun síðasta mánaðar. Alls bætir flokkurinn við sig 3,6 prósentum og mælist nú með 13,4 prósent. Í kosningunum 2017 fékk flokkurinn 10,9 prósent.

Píratar, sem átt hafa í hatrömmum innanflokksátökum, missa nokkurt fylgi frá síðustu könnun blaðsins.

Skjáskot úr Fréttablaðinu í dag.