Ný skýrsla um þriðja orkupakkann kynnt í dag

Sérfræðinefnd Orkunnar okkar boðar til blaðamannafundar í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag kl. 15:00. Tilefnið er útgáfa skýrslu um áhrif inngöngu Íslands í Orkusamband Evrópusambandsins sem samin er af níu sérfræðingum sem allir hafa mikla þekkingu og reynslu af ýmsum hliðum efnahagsmála, orkumála og þjóðarréttar. Helstu efnisatriði skýrslunnar verða kynnt ásamt mikilvægustu niðurstöðum skýrsluhöfunda.

Í skýrslunni er meðal annars farið yfir afleiðingar orkulöggjafar ESB á efnahags- og atvinnumál landsins. Þar er líka fjallað um lögfræðileg álitamál ásamt því að upplýsa um stjórnmálalegan þátt innleiðingar þess orkupakka sem til stendur að Alþingi afgreiði um næstu mánaðamót.

Heildarniðurstaða skýrsluhöfunda er sú að það sé rökrétt að Alþingi hafni upptöku 3. orkupakka ESB á þeirri forsendu að upptaka orkupakkans í íslensk lög sé skaðleg fyrir íslenska þjóð, efnahag hennar og náttúru. Mjög mikilvægt er að málið verði rækilega kynnt almenningi í fjölmiðlum. Einnig er lagt til að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um málið.

„Tilefni skýrslunnar er að Alþingi og íslensk þjóð standa nú frammi fyrir því að taka eina þá stærstu ákvörðun í orkumálum sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir í sögu íslenska lýðveldisins. Málið varðar skipan raforkumála í landinu um fyrirsjáanlega framtíð og yfirráð yfir orkulindum þjóðarinnar,“ segir í tilkynningu frá Orkunni okkar.

Ritstjórar skýrslunnar eru: Jónas Elíasson, Stefán Arnórsson og Haraldur Ólafsson en Erlendur Borgþórsson er umsjónarmaður útgáfunnar. Aðalhöfundar efnis eru eftirtaldir:

  • Bjarni Jónsson, verkfræðingur
  • Elías B. Elíasson, verkfræðingur
  • Eyjólfur Ármannsson, lögfræðingur
  • Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra
  • Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra
  • Ragnar Árnason, prófessor
  • Sigurbjörn Svavarsson, framkvæmdastjóri
  • Stefán Arnórsson, prófessor
  • Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri

Um er að ræða yfirgripsmikið verk upp á 82 blaðsíður en skýrslan hefst á ágripi upp á rúmar 9 blaðsíður þar sem helstu atriði hvers kafla eru dregin saman. Kaflarnir eru alls 11 og er 9. kaflinn lang yfirgripsmestur en hann fjallar um lagaleg atriði varðandi orkupakkann. Aðrir kaflar fjalla um

  • eðli orkulinda
  • orkustefnu ESB
  • orkupakka 4 og afleiðingar hans
  • orkulindir Íslands
  • viðskipti um sæstreng og íslenska raforkukerfið
  • stýringu íslenska orkukerfisins og orkuöryggi
  • efnahagsleg áhrif orkupakka 3
  • raforkufyrirtæki, náttúruauðlindir og orkustefnu ESB

Útgefendur og ábyrgðarmenn verksins er Orkan Okkar sem eru  samtök þeirra sem vilja standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt Íslands í orkumálum.

Skýrslan ásamt heimildaskrá verður gerð aðgengileg á www.orkanokkar.is  ásamt prentvænni og styttri útgáfu hennar.