Ný smit komin upp í Bolungarvík — smit út frá loftræstikerfi nær útilokað

Hjúkrunarheimilið Berg. / bolungarvik.is

Staðfest smit af Covid-19 Kórónuveirunni er komið upp í íbúðum í sama húsi og Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík. Þetta staðfestir Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofunun Vestfjarða, við Viljann í morgun.

Tveir íbúar í húsinu, systkini, hafa greinst með smit. Upp komu grunsemdir um að loftræstikerfi heimilisins gæti verið valdur að endurteknum sýkingum, en svo virðist ekki vera, að sögn Gylfa.

„Á meðan beðið var niðurstaðna úr sýnatöku og smitrakningu í gær var skoðað hvort loftræsting gæti spilað rullu. Teikningar voru sóttar og við ræddum við verkfræðinga. Við teljum eftir þá skoðun nánast útilokað að loftræstikerfið spili nokkra rullu. Þó er búið að fara í aðgerðir til að loka fyrir og slökkva á enn meiru en áður hafði verið gert.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða ávarpaði upplýsingafund Almannavarna fyrir páska. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var einnig á fundinum. / Lögreglan.

Síðan í gærdag hafa frekari smitrakning og niðurstöður sýnatöku staðfest einstakling sem tengir smitin saman. Við höfum því skýra mynd af því sem gerðist. Ljóst er að herða þarf á sóttvarnaaðgerðum í íbúðunum sem um ræðir, en þær eru í sama húsi og hjúkrunarheimilið.

Mikilvægt er að allir fylgi leiðbeiningum lækna og heilbrigðisyfirvalda um sóttkví, samskiptafjarlægð og smitgát,“ segir Gylfi í svari til Viljans.

Hann bætir við að samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis hafa engar trúverðugar vísbendingar komið fram um að loftræstikerfi beri smit, og Mannvirkjastofnun sé sama sinnis.

Fréttin hefur verið uppfærð með tilliti til þess að smitin eru á heimilum áföstum Hjúkrunarheimilinu Bergi, en ekki þar innandyra.