Ný tegund húsnæðislána – upptaka af kynningarfundi

Ný skýrsla starfshóps félagsmálaráðherra um lækkun þröskulds ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað var kynnt í morgun. 

Líkt og fram kom á sameiginlegum kynningarfundi ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins í ráðherrabústaðnum í fyrradag munu 40 ára verðtryggð lán verða aflögð frá og með næstu áramótum. Til að auðvelda tekjulágum hópum að eignast fasteign er í staðinn gert ráð fyrir nýrri tegund húsnæðislána. Hvers konar lán þessum hópum muni standa til boða mun byggja á tillögum áðurnefnds starfshóps, sem þegar hafa verið kynntar aðilum vinnumarkaðarins. 

Bein útsending frá kynningarfundi í höfuðstöðvum Íbúðalánasjóðs Borgatúni 21.Þar verður ný skýrsla starfshóps félagsmálaráðherra um lækkun þröskulds ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað kynnt.Líkt og fram kom á sameiginlegum kynningarfundi ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins í ráðherrabústaðnum í gærkvöldi þá munu 40 ára verðtryggð lán verða aflögð frá og með næstu áramótum. Til að auðvelda tekjulágum hópum að eignast fasteign er í staðinn gert ráð fyrir nýrri tegund húsnæðislána. Hvers konar lán þessum hópum muni standa til boða mun byggja á tillögum áðurnefnds starfshóps, sem þegar hafa verið kynntar aðilum vinnumarkaðarins.Formaður starfshópsins, Frosti Sigurjónsson, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar munu á fundinum fjalla um tillögurnar, fyrir hverja þær eru hugsaðar og hvernig þær munu skapa jafnari stöðu á húsnæðismarkaði en áður hefur verið. Alls eru tillögurnar í 14 liðum og fela meðal annars í sér tvær nýjar tegundir húsnæðislána sem ekki hafa sést á Íslandi áður.

Posted by Íbúðalánasjóður on Föstudagur, 5. apríl 2019

Meðal tillagna starfshópsins eru tvær nýjar tegundir húsnæðislána; startlán og eiginfjárlán. Með startlánum myndi ríkið veita viðbótarlán með háum veðhlutföllum og hagstæðum vöxtum til afmarkaðra hópa sem eiga sérstaklega erfitt með að eignast húsnæði. Startlán verði háð því að um hagkvæmt húsnæði sé að ræða sem er í samræmi við þarfir lántaka. Tiltekinn hluti startlána gæti verið tengdur nýjum íbúðum til þess að auka framboð nýs, hagkvæms húsnæðis.

Með eiginfjárláni myndi ríkið veita lán sem geta numið 15-30% af kaupverði og eru án afborgana. Eiginfjárlán lækka bæði þröskuld útborgunar og greiðslugetu og gætu nýst t.d. þeim hópi sem ekki ræður við greiðslubyrði startlána. Eiginfjárlán verði afmörkuð við hagkvæmt húsnæði og hægt að nota þau til að skapa aukinn hvata til byggingar slíks húsnæðis. Höfuðstóll eiginfjárlána tekur breytingum með markaðsvirði íbúðarinnar. Lánið endurgreiðist við sölu íbúðar eða eftir 25 ár. Lántaki má greiða lánið upp fyrr á matsvirði eða í áföngum og hefur hvata til þess því eftir fimm ár reiknast hóflegir vextir á lánið.

Á meðal annarra tillagna er að tekjulágir geti fullnýtt skattfrjálsan húsnæðissparnað, að skilyrði um fyrstu kaup verði rýmkuð, að fresta megi afborgunum af námslánum LÍN um fimm ár, að vaxtabótum verði beint að tekjulægri hópum og að afsláttur af stimpilgjaldi við fyrstu kaup verði 200 þúsund kr.

Um er að ræða fyrstu drög að tillögum en með fyrirvörum um nánari útfærslu, greiningu á kostnaði og áhrifum.

Þröskuldur ungs fólks og tekjulágra enn of hár

Samkvæmt niðurstöðu starfshópsins er þröskuldur ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað enn of hár, þrátt fyrir aukinn kaupmátt og sögulega lága raunvexti. Íbúðaverð hefur hækkað umfram ráðstöfunartekjur sem gerir fólki erfiðara að safna fyrir kaupum á íbúð. Þá hafa ráðstöfunartekjur ungs fólks hækkað minna en annarra aldurshópa og verð lítilla íbúða, sem henta fyrstu kaupendum, hefur hækkað mest.

Stór hluti leigjenda vill komast í eigin íbúð en er í raun fastur á leigumarkaði. Hlutfall fólks sem býr í leiguhúsnæði er nú hærra en fyrir áratug síðan og hlutfall lágtekjufólks í þeim hópi hefur farið hækkandi. Langflestir leigjendur segjast myndu kjósa að búa í eigin húsnæði en vísbendingar eru um að það sé óyfirstíganlegur þröskuldur fyrir marga leigjendur að safna eigin fé til íbúðakaupa, meðal annars vegna mikillar hækkunar leiguverðs. Hlutfall fólks á þrítugsaldri sem býr í foreldrahúsum hefur einnig hækkað á undanförnum áratug. Meirihluti þeirra sem hafa keypt sína fyrstu íbúð á undanförnum árum hafa fengið til þess fjárhagslega aðstoð frá ættingjum eða vinum.

„Húsnæðismálin eru stórt velferðarmál. Sveiflur á húsnæðismarkaði undanfarinna ára hafa leitt til þess að hópur fólks hefur setið eftir og býr við minna húsnæðisöryggi en aðrir og þá sérstaklega ungt fólk og tekjulægri einstaklingar. Af þeirri ástæðu setti ég af stað þessa vinnu. Tillögurnar ríma vel við niðurstöður kjarasamninga. Ég ber þá von í brjósti að þær muni hafa mikla þýðingu fyrir þá hópa sem á þurfa að halda,“ sagði Ásmundur Einar þegar tillögur starfshópsins voru kynntar í dag.

Um starfshópinn: 

Verkefnisstjórn um aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn var skipuð af félags- og barnamálaráðherra þann 27. desember 2018 og tók þegar til starfa. Skipan starfshópsins er liður í því að fylgja eftir ákvæðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er varða húsnæðismál ungs fólks og tekjulágra.

Starfshópinn skipuðu Frosti Sigurjónsson, án tiln., formaður, Hermann Jónasson, tiln. af Íbúðalánasjóði, Bergþóra Benediktsdóttir, tiln. af forsætisráðuneytinu og Anna B. Olsen og til vara Sigurður Páll Ólafsson, bæði tiln. af fjármálaráðuneytinu. Starfsmaður hópsins var Ólafur Heiðar Helgason, sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Starfshópurinn fundaði samtals 14 sinnum, tók við ábendingum frá almenningi og hafði meðal annars samráð við aðila vinnumarkaðar, fulltrúa lífeyrissjóða, lánastofnanir, hagsmunasamtök heimilanna og átakshóp sem forsætisráðherra skipaði um aukið framboð á íbúðum.