Dr. Vilhjálmur Ari Arason læknir, sem situr í sóttvarnaráði sem fulltrúi heilbrigðisráðherra, furðar sig á því að ráðið hafi ekki verið kallað saman síðan um miðjan febrúar vegna Kórónaveirufaraldursins. Hann hefur hvatt til fundar hjá ráðinu, en engin svör fengið.
Vilhjálmur, sem er með doktorsgráðu í læknisfræði frá Háskóla Íslands og hefur m.a. starfað sem heimilislæknis, klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og sérfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans, hefur setið í sóttvarnaráði um árabil. Hann var fyrst skipaður í ráðið 2003 af heilbrigðisráðherra og svo aftur 2017.
Í Morgunblaðinu í dag bendir Vilhjálmur á að sóttvarnaráð eigi fyrst og fremst að vera heilbrigðisráðherra og sóttvarnalækni til ráðgjafar ef mikil vá steðjar að. Á fundinum í febrúar hafi sóttvarnalæknir fengið fullan stuðning miðað við fyrirliggjandi áætlanir og eftir því aðgerðastigi hafi síðan verið keyrt. „Ég held að það séu flestir sammála um að þetta hefur lukkast vel en ég held engu að síður að samráð sé af hinu góða,“ segir Vilhjálmur Ari í samtali við blaðið.
Meðal þeirra atriða sem Vilhjálmur hefði kosið að rædd yrðu í sóttvarnaráði er hvort rétt sé að halda skólum og leikskólum opnum í kórónuveirufaraldrinum. „Það eru ný vísindi fyrir mér ef faraldur eins og þessi dreifist ekki mest meðal barna,“ segir hann meðal annars.
Annað sem hann hefði viljað ræða á þessum vettvangi er hugmyndir tveggja heimilislækna sem vildu loka norðausturhorni landsins fyrir umferð til að hefta að veiran bærist þangað.
Viljinn birti einmitt viðtal við annan þessara lækna í vikunni og gagnrýndi hann þar afstöðu sóttvarnalæknis harðlega.