Nýja Sjáland mun ekki opna landamærin á næstunni

Ardenny, forsætisráðherra Nýja Sjálands.

Nýja Sjáland er eitt þeirra ríkja (ásamt Íslandi) sem hefur náð að hemja kórónuveirufaraldurinn hvað best. Nýsjálendingar lokuðu snemma landamærum sínum og nú hefur forsætisráðherrann Jacinda Ardern staðfest að þau verði ekki opnuð aftur á næstunni.

Nýja Sjáland byggir mjög afkomu sína á komu ferðamanna, eins og við Íslendingar. Hlutfall ferðamannaiðnaðarins í landinu af landsframleiðslu er þó snöggtum minna en hjá okkur; 10% vinnuafls landsins er í ferðamennsku og tekjurnar nema um 6% af landsframleiðslu.

Flestir ferðamenn koma frá Ástralíu, en þar á eftir koma Kínverjar, Bandaríkjamenn og Bretar.

Sú hugmynd er til skoðunar, að sögn forsætisráðherrans, að leyfa ferðamönnum að fara frjálst milli Nýja Sjálands og Ástralíu, enda hafa Ástralar einnig náð góðum árangri í sínum veiruvörnum. Landamærin verði hins vegar lokuð lengi enn fyrir fólk af öðru þjóðerni.