Nýja testamentið ókeypis og aðgengilegt sem hlaðvarp

Dr. Grétar Halldór Gunnarsson, prestur í Grafarvogskirkju.

Hið íslenska Biblíufélag hefur látið hljóðrita upplestur á Nýja testamentinu eins og það leggur sig og nú er hægt að hlýða ókeypis á það í snjalltækjum, snjallforritum og tölvum.

Biblíufélagið er elsta starfandi félag landsins, stofnað 1815. Rætt er við dr. Grétar Halldór Gunnarsson, prest í Grafarvogskirkju, á vef Kirkjunnar í tilefni merkra tímamóta í miðlun á texta Biblíunnar. 

„Biblíufélagið stóð fyrir hópfjármögnun til að hljóðrita Nýja testamentið svo hægt væri að hlusta á það í snjalltækjum, snjallforritum og tölvum,“ segir dr. Grétar Halldór. „Fjöldi fólks studdi verkefnið og var lestur á Nýja testamentinu tekinn upp í vor“, bætir hann við. 

Upptökur fór fram hjá Hljóðbók.is og tókust mjög vel að sögn hans. 

Það var úrvalshópur leikara sem lagði verkinu til raddir sínar: Arnar Jónsson, Kristján Franklín Magnúss, Guðjón Davíð Karlsson, Guðrún Ásmundsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Steinunn Jóhannesdóttir og Þóra Karítas Árnadóttir. 

„Þetta er fólk á öllum aldri og allt saman flottir lesarar,“ segir dr. Grétar Halldór. 

Segja má að þetta sé bylting í boðun og miðlun fagnaðarerindisins. Svokölluð hlaðvörp, e. Podcast, njóta mikilla vinsælda og hver hefur ekki séð fólk með heyrnartæki tengd símum í strætó, flugvélum, á fjöllum og hvar sem er?

Og nú er hægt að hlusta á Biblíuna með þessum hætti, hvar og hvenær sem er.

Biblíuappið
Biblían