Spánverjar ganga að kjörborðinu í dag, í fjórða sinn á þremur árum, eftir að forsætisráðherrann Pedro Sánchez, boðaði til almennra þingkosninga í febrúar sl. Katalónskir aðskilnaðarsinnar höfðu þá slegist í lið með hægriflokkunum í að hafna fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar flokks hans, Spænska sósíalíska verkamannaflokknum (PSOE).
Hægt er að fylgjast með beinni textaútsendingu á ensku á vef El País hér.
Flokkurinn hefur verið við stjórnvölinn síðan í júní í fyrra, þegar hann kom Íhaldsflokknum (PP) frá með vantrausti vegna spillingar. Minnihlutastjórn PSOE hefur átt í erfiðleikum með að koma stefnuskrá sinni í gegnum þingið, en flokkurinn hefur aðeins 84 þingsæti af 350.
Fyrir þessar kosningar hefur nýr flokkur lengst til hægri, Vox, vakið athygli, en hann vill banna sjálfstæðishreyfingar í Katalóníu og hefur horn í síðu femínisma og pólitískrar rétthugsunar. Flokkurinn hefur fengið um 11% í skoðanakönnunum og búist er við stórsigri hans og möguleika á að mynda ríkisstjórn með öðrum flokkum í framhaldinu. PSOE er þó spáð sigri, með um 30% í könnunum, en ekki nægum til að mynda meirihluta.
Lokakannanir blaðsins El Pais sýndu íhaldsflokkinn PP með 20%, mið-hægri flokkinn Ciudadanos og vinstri flokkinn Podemos báða nærri 14%.
Vox er talinn eiga uppruna sinn í vaxandi óánægju með stjórnmálalegan óstöðugleika, innflytjendamál, slappt efnahagslíf og mikið atvinnuleysi á Spáni. Deilur aðskilnaðarsinna í Katalóníu hafi kynt enn frekar undir skjótar vinsældir hans, en flokkurinn hefur lýst yfir aðdáun á Franco, fyrrum einræðisherra Spánar, sem lagði mikla áherslu á að þagga niður raddir aðskilnaðarsinna.
Af þessu tilefni er kannski vert að rifja upp að stjórnleysi skilaði Spáni hagvexti og vaxandi atvinnuþátttöku, eftir að landið hafði ekki haft starfandi ríkisstjórn í 10 mánuði haustið 2016.