Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við blaðamenn í þinghúsinu í dag að nýr dómsmálaráðherra muni koma úr röðum sjálfstæðismanna. Annað hvort muni einhver núverandi ráðherra flokksins taka við verkefnum dómsmálaráðuneytisins eða að einhver þingmaður Sjálfstæðisflokksins setjist á ráðherrastól.
Bjarni sagði að boðað yrði til ríkisráðsfundar jafnvel á morgun til þess að skipa nýjan dómsmálaráðherra, en framkvæmd þess væri í höndum forsætisráðherra og forseta Íslands.
„Ég verð að segja að þessi niðurstaða sem kemur að utan kemur manni í mjög opna skjöldu,“ sagði Bjarni um dóm Mannréttindadómstólsins frá í gær. Hann sagði að samstaða væri innan ríkisstjórnarinnar um að láta reyna á dóminn fyrir æðra dómstigi, sem þýðir að honum verður áfrýjað.