Nýr öndunarmælir getur skimað fyrir veirunni á einni mínútu

Tilraunir eru farnar af stað með nýja tegund af öndunarmæli sem hannaður er til að skima fyrir veirusýkingum og gæti greint staðfest smit af kórónuveirunni covid-19 á einni mínútu eða skemur.

Mælirinn er uppfinning ísraelsku fyrirtækjanna Next-Gen og Scentech Medical og svipar til áfengismæla sem lögregla notar til að mæla magn etanóls í blóði. Sjúklingurinn andar inn í tækið sem vinnur svo úr þúsundum gasagna úr andadrættinum og einangrar þær sem bera veiruna.

Fyrstu tilraunir hafa gefið svo góða raun, að leyfi hefur fengist til að hefja tilraunaskimun á þeim sem þegar hafa greinst með veiruna, að því er Jerusalem Post greinir frá.

Gangi þessar tilraunaskimanir vel, segjast fyrirtækin þess albúin að hefja fjöldaframleiðslu á mælunum sem gætu gjörbylt almennri skimun fyrir veirunni. Hægt yrði að skima farþega sem koma úr flugi með skjótum árangri, greina einkennalaust fólk og koma því miklu fyrr í einangrun, en ella væri.

Skjótgreind almenn skimun fyrir veirunni er talin forsenda fyrir því að ríki heims geti í auknum mæli dregið úr margvíslegum takmörkunum sem í gildi eru á ferða- og atvinnufrelsi fólks um alla veröld með þeim afleiðingum að versti samdráttur blasir við í alþjóðaviðskiptum í meira en öld.