Nýr vindhani án kórónu á Bessastaðakirkju

„Þennan indæla vetrardag voru merk tímamót hér á þjóðhöfðingjasetrinu. Settur var upp nýr vindhani á Bessastaðakirkju í tilefni þess að í ár eru tvær aldir liðnar frá því að lokið var við turn hennar. Skömmu eftir lýðveldisstofnun 1944 vék eldri vindhani fyrir einföldum krossi og sá var tekinn niður skömmu fyrir síðustu aldamót. Nýi vindhaninn er sömu gerðar og sá upprunalegi. Að sjálfsögðu er hann þó án kórónu, ólíkt þeim fyrri, enda mætti það kallast ankannalegt ef tákn erlends þjóðhöfðingja blasti helst við á Bessastöðum,“ skrifar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á fésbókarsíðu embættisins.

„Gott verður að sjá skýrt hvernig vindar blása hér á Álftanesi. Þar að auki hefur vindhani sérstakt gildi í kristinni trú. Haninn er tákn árvekni og skyldurækni og minnir á það þegar Pétur postuli afneitaði Jesú þrisvar en þá gól þar hani. Undir nýja vindhananum er útskorið byggingarár kirkjunnar, 1823, þó að hún hafi reyndar verið vígð og tekin í notkun árið 1796.

Ég hvet fólk til að gera sér ferð hingað á Bessastaði við hentugleika og sjá með eigin augum hversu vel vindhaninn sómir sér á kirkjuturninum. Fram undan er vinna við að bæta aðgengi að Bessastaðakirkju og nokkrar nauðsynlegar viðgerðir án þess að heildarsvipur hennar breytist. Verður þar með lokið framkvæmdum við kirkjuna,“ bætir forsetinn við.