Leyniþjónusta norska hersins, Forsvarets Etterretningstjeneste, sem safnar og leggur mat á upplýsingar um ytri hættur sem steðja að Noregi lagði fram hættumat sitt fyrir árið 2019, Fokus 2019, mánudaginn 11. febrúar. Forstjóri stofnunarinnar, Morten Haga Lunde hershöfðingi, lýsti sérstökum áhyggjum vegna leynilegra aðgerða Rússa og Kínverja gegn norskum hagsmunum.
„Þessar tvær þjóðir hafa getu til að beita flóknum og óvinveittum net-aðgerðum og þær þróa stöðugt hæfni sína á þessu sviði,“ segir í hættumatinu.
„Hér er um að ræða aðgerðir sem beinast að hernaðarlegum og pólitískum þáttum, að norsku atvinnulífi og norsku heilbrigðiskerfi. Þær eiga sér stað á rafrænum vettvangi. Við teljum að þær séu mun umfangsmeiri en okkur er ljóst vegna þess að okkur skortir aðferðir til að afhjúpa leynileg umsvif á þessu sviði. Hér er verk að vinna,“ sagði Haga Lunde.
Í frétt norska ríkisútvarpsins, NRK, um hættumatið segir að í Noregi hafi verið miklar umræður um að ríkisstjórnin vilji að leyniþjónustan visti og leiti í öllum rafrænum gögnum sem fari yfir norsku landamærin. Þetta lýtur að öllu sem gerist á samfélagsmiðlum og á vettvangi stóru fyrirtækjanna sem veita tölvupóstþjónustu.
Norska Persónuverndin telur að í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um þetta mál felist heimild til alltof mikillar gagnasöfnunar og þess vegna brjóti frumvarpið gegn stjórnarskránni.
Forstjóri leyniþjónustunnar varar einnig við hættunni af truflunum á GPS-sendingum eins og Norðmenn og fleiri kynntust í NATO-æfingunni haustið 2018 þegar slíkum truflunum var beitt gegn siglingartækjum flugvéla.
„Ég hef áhyggjur af því hvernig Rússar haga sér í nágrenni okkar og þeirri aðferð sem þeir beita til að trufla GPS-sendingar sem hefur alvarleg áhrif á almennar samgöngur og mannlíf einkum í Finnmörk,“ sagði Haga Lunde við NRK.
Hann segir tiltölulega auðvelt að trufla GPS-sendingar.
„Rússar ráða yfir búnaði til þess í herstöðvum sínum á Kólaskaganum. Að honum sé beitt er alvarlegt því að hann hefur áhrif á störf lögreglu og starfsemi heilsugæslu í norðri,“ segir forstjórinn.
Í matsskýrslunni segir að vegna spennu milli Rússa og stjórnvalda á Vesturlöndum snúi Rússar sér í vaxandi mæli til Kínverja með tilmælum um aðstoð við mannvirkjagerð og þróun tæknibúnaðar. Hernaðarleg samvinna milli Rússa og Kínverja aukist. Af þessu leiði að Norðmenn megi búast við meiri sýnilegum kínverskum umsvifum í nágrenni við land sitt.
Þá er bent á að Rússar reyni áfram að hafa áhrif á gang mála og ýta undir ágreining í Evrópu og innan NATO. Þótt stundum takist að afhjúpa leynimakk þeirra láti Rússar það ekki á sig fá.
„Fyrir utan falskar fréttir fjölgar þeim fréttasíðum sem ritstýrt er með það að markmiði að setja vestræn samfélög og gildi í sem verst ljós. Þetta á einnig við um Noreg,“ segir í skýrslunni.
Þar er einnig minnt á að öfgahreyfingarinar IS og ISIL hafi skapað Norðmönnum og öðrum vestrænum þjóðum verulega ógn undanfarin ár. Á árinu 2018 hafi hryðjuverkum íslamskra öfgahópa hins vegar fækkað mjög í Evrópu hvort sem litið sé til áætlana um þau eða beinar árásir. Á árinu 2017 voru 25 fullframin hryðjuverk skráð í Evrópu og 28 tilvik þar sem komið var í veg fyrir hryðjuverk, í fyrra voru sambærilegar tölur 9 fyrir fullframin verk og 10 fyrir þau sem kæfð voru.
Því er spáð að þessi þróun haldi áfram í ár.
Kínverjar og norðurslóðir
Á vefsíðunni Barents Observer er athygli sérstaklega beint að því sem snertir norðurslóðir í hættumatinu fyrir árið 2019.
Athygli er dregin að þeim orðum í skýrslunni þar sem segir að búast megi við auknum umsvifum Kínverja í nágrenni Noregs og sagt að þróun í þá átt falli vel að því markmiði sem Xi Kínaforseti hafi kynnt um að þróa herinn í takt við risaveldisdrauma hans um Kína. „Ráðamenn í Peking munu meira en áður nota hervald í þágu utanríkisstefnu sinnar,“ segir í Fokus 2019.
Barents Observer minnir á að Kínverjar eigi þriðja stærsta herflota heims en þeir hafi aldrei sent herskip á norðurslóðir. Þetta kunni þó fljótlega að breytast.
Í fyrra sumar heimsótti Shen Jinlong, yfirmaður kínverska flotans, Severomorsk, höfuðstöðvar Norðurflota Rússa við strönd Barentshafs fyrir norðan Múrmansk.
Jinlong var boðinn um borð í fjölhæfa kjarnorkuknúna kafbátinn Voronezh af Oscar-gerð. Kínverja nota rússneskan kjarnorkubúnað til að knýja langdræga kafbáta sína.
Eftir að Jinlong heimsótti Norðurflotann sagði fréttastofa hans að kínverskir og rússneskir flotaforingjar hefðu rætt „mál tengd andsvari við núverandi ógnum á heimshöfunum“. Þá ræddu þeir einnig „hugsanlegar raunhæfar aðgerðir til samstarfs með það fyrir augum að styrkja öryggi á höfunum“.
Kínverski flotinn hefur jafnan haldið sig nærri heimaslóðum og gætt kínverskra hagsmuna þar. Frá árinu 2015 hefur þetta breyst. Þá voru kínversk herskip send til æfinga með Rússum í Miðjarðarhafi og Svartahafi. Árið 2017 æfðu kínversk herskip með rússneskum á Eystrasalti.
Kínverjar vinna nú að því að koma sér upp herflota sem geti látið að sér kveða hvar sem er í heiminum.
Fyrir utan venjuleg herskip er nú unnið að smíði fjögurra kínverskra flugmóðurskipa. Henni á að verða lokið árið 2025. Nú eiga Kínverjar aðeins eitt nothæft flugmóðurskip, Liaoning. Kjölur að því var upphaflega lagður árið 1985 fyrir sovéska flotann. Við upplausn Sovétríkjanna var smíði skipsins hætt og Úkraínustjórn auglýsti það til sölu. Kínverski flotinn keypti það árið 1998 og lauk smíði þess endanlega árið 2012 og gerði það að kennslu- og þjálfunarskipi.
Eina flugmóðurskipið í Norðurflota Rússa, Admiral Kuznetsov, er sömu gerðar og Liaoning.
Nú er unnið að stórviðgerð á Admiral Kuznetsov í slippstöð flotans, No. 35 Sevmorput í Múrmansk. Viðgerðinni eða endurgerðinni lýkur ekki fyrr en á árinu 2022. Vegna skorts á æfingarvelli fyrir rússneska flotaflugmenn hafa verið vangaveltur í Rússlandi um að kannski gætu þeir fengið afnot af Liaoning til að halda einhverjum þeirra í horfinu.
Af vardberg.is, birt með leyfi.