Nýtt póstnúmer, 102 Reykjavík, verður að veruleika í Vatnsmýri

Nýtt póstnúmer, 102 Reykjavík, verður að veruleika í Vatnsmýri með formlegri staðfestingu þess efnis í borgarráði í dag.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir á fésbókinni að margar borgir eigi miðborgir þar sem talað er um gamla bæinn og nýja bæinn og megi segja að skiptingin milli 101 og 102 Reykjavík kallist á við þetta.

„Um er að ræða eitt mesta uppbyggingarsvæði landsins um þessar mundir með tvo háskóla, öfluga stúdentagarða, Hlíðarenda, Skerjafjörð og Nauthólsvík innanborðs. Það er því af sem áður var að mesta uppbygging íbúðarhúsnæðis í borginni sé í 101 – hún er í 102 Reykjavík. Stór hluti þess eru leiguíbúðir á viðráðanlegu verði, í stúdentagörðum HÍ og HR,“ segir borgarstjóri.