Í dag tók gildi nýtt skipurit Seðlabanka Íslands á grundvelli nýrra laga um Seðlabanka Íslands vegna sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins í upphafi þessa árs. Samkvæmt skipuritinu verða kjarnasvið bankans sjö, þ.e. hagfræði og peningastefna, markaðsviðskipti, fjármálastöðugleiki, bankar, lífeyrir og vátryggingar, markaðir og viðskiptahættir, og lagalegt eftirlit og vettvangsathuganir.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem birt er á heimasíðu Seðlabankans. Eins og Viljinn greindi frá fyrr í dag, var boðað til starfsmannafundar kl. 14 þar sem þetta var kynnt fyrir starfsfólki sameinaðs Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Stoðsvið bankans verða fjögur, þ.e. rekstur, upplýsingatækni og gagnasöfnun, fjárhagur, og mannauður. Jafnframt er í skipuritinu miðlæg skrifstofa bankastjóra. Með nýju skipuriti verða nokkur svið lögð niður eða sameinuð, starfsfólk færist til og átta störf verða lögð niður.
„Seðlabankastjóri stýrir og ber ábyrgð á starfsemi og rekstri Seðlabanka Íslands og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum bankans sem ekki eru falin öðrum með lögum.
Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabankans í peningamálum eru teknar af peningastefnunefnd. Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabankans varðandi fjármálastöðugleika eru teknar af fjármálastöðugleikanefnd. Ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum heyra undir fjármálaeftirlitsnefnd.
Ákvarðanir um varðveislu gjaldeyrisforða og veitingu ábyrgða eða lána til lánastofnana í lausafjárvanda skulu teknar af seðlabankastjóra og varaseðlabankastjórum á fundi sem seðlabankastjóri boðar til. Á sama hátt skal taka ákvarðanir um setningu reglna um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris á grundvelli laga um gjaldeyrismál, ákvarðanir um setningu reglna um starfsemi skipulegra gjaldeyrismarkaða og um skipulag og setningu reglna um starfsemi bankans.
Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda.
Ráðherra skipar seðlabankastjóra til fimm ára í senn. Ráðherra skipar einnig þrjá varaseðlabankastjóra til fimm ára í senn. Einn varaseðlabankastjórinn leiðir málefni sem varða peningastefnu, annar málefni sem varða fjármálastöðugleika og sá þriðji málefni sem varða fjármálaeftirlit.
Seðlabankastjóri
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri frá og með 20. ágúst 2019.
Varaseðlabankastjórar, frá og með 1. janúar 2020:
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu.
Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika (hefur störf 1. mars 2020).
Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits.
Peningastefnunefnd
Ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum eru teknar af peningastefnunefnd. Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu grundvallast á markmiði um stöðugt verðlag og byggjast á vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahagsmálum.
Í peningastefnunefnd situr seðlabankastjóri, varaseðlabankastjóri peningastefnu, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og tveir sérfræðingar á sviði efnahags- og peningamála sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. Seðlabankastjóri er formaður peningastefnunefndar og er varaseðlabankastjóri peningastefnu staðgengill hans.
Peningastefnunefnd tekur ákvarðanir um vexti skv. 22. gr. laga um Seðlabankann til að framfylgja peningastefnu bankans. Einnig tekur nefndin ákvarðanir um viðskipti við lánastofnanir önnur en tilgreind eru í 2. mgr. 19. gr. laganna. Þá tekur nefndin ákvarðanir um bindiskyldu, viðskipti á gjaldeyrismarkaði og viðskipti með verðbréf sem ætlað er að stuðla að því að markmiðum bankans um stöðugt verðlag verði náð.
Fjármálastöðugleikanefnd
Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands varðandi fjármálastöðugleika, eru teknar af fjármálastöðugleikanefnd. Ákvarðanir fjármálastöðugleikanefndar skulu grundvallast á lögum og byggjast á vönduðu mati á ástandi og horfum í fjármálakerfinu. Vegna starfa nefndarinnar skal Seðlabankinn hafa samvinnu við önnur stjórnvöld, þar á meðal ráðuneyti sem fer með málefni fjármálastöðugleika.
Í fjármálastöðugleikanefnd situr seðlabankastjóri, varaseðlabankastjórar og þrír sérfræðingar í málefnum fjármálamarkaðar eða hagfræði sem ráðherra sem fer með málefni fjármálastöðugleika skipar til fimm ára í senn. Ráðuneytisstjóri, eða tilnefndur embættismaður ráðuneytis sem fer með málefni fjármálastöðugleika, skal eiga sæti á fundum nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar. Samsetning fjármálastöðugleikanefndar skal vera þannig að nefndin búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að vinna þau verkefni sem nefndinni eru falin. Seðlabankastjóri er formaður fjármálastöðugleikanefndar og er varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika staðgengill hans.
Verkefni fjármálastöðugleikanefndar eru:
Leggja mat á ástand og horfur í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika,
Fjalla um og skilgreina þær aðgerðir sem taldar eru nauðsynlegar á hverjum tíma til að hafa áhrif á fjármálakerfið, í þeim tilgangi að efla og varðveita fjármálastöðugleika, og beina í því skyni ábendingum til viðeigandi stjórnvalda þegar tilefni er til,
Samþykkja stjórnvaldsfyrirmæli og taka þær ákvarðanir sem nefndinni er falið að taka með lögum,
Ákveða hvaða eftirlitsskyldir aðilar, innviðir og markaðir skuli teljast kerfislega mikilvægir og þess eðlis að starfsemi þeirra geti haft áhrif áfjármálastöðugleika.
Fjármálaeftirlitsnefnd
Fjármálaeftirlitsnefnd skal taka ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Nefndin getur framselt til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits vald sitt til töku ákvarðana sem ekki teljast meiri háttar.
Í fjármálaeftirlitsnefnd situr varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og þrír sérfræðingar í málefnum fjármálamarkaðar sem ráðherra sem fer með málefni fjármálamarkaðar skipar til fimm ára í senn. Samsetning fjármálaeftirlitsnefndar skal vera þannig að nefndin búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að vinna þau verkefni sem nefndinni eru falin. Varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits er formaður fjármálaeftirlitsnefndar og er varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika staðgengill hans. Við töku ákvarðana um setningu starfsreglna, ákvarðana um framsal valds til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits til töku ákvarðana sem teljast ekki meiri háttar ákvarðanir sem og ákvarðana sem varða eigið fé, laust fé og fjármögnun kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja tekur seðlabankastjóri sæti í fjármálaeftirlitsnefnd sem formaður nefndarinnar og er þá varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits staðgengill hans.
Bankaráð Seðlabankans
Kjósa skal bankaráð Seðlabanka Íslands að loknum kosningum til Alþingis. Bankaráð skipa sjö fulltrúar kjörnir hlutbundinni kosningu af Alþingi ásamt jafnmörgum til vara.
Umboð bankaráðs gildir þar til nýtt bankaráð hefur verið kjörið. Láti bankaráðsmaður af störfum tekur varamaður sæti hans þar til Alþingi hefur kosið nýjan aðalmann til loka kjörtímabils bankaráðsins.
Bankaráð velur formann og varaformann úr eigin röðum.
Seðlabankastjóri situr fundi bankaráðs og hefur þar tillögurétt og tekur þátt í umræðum. Hann skal þó víkja af fundi ef bankaráð ákveður. Innri endurskoðandi hefur rétt til setu á fundum bankaráðs og skal hann upplýsa bankaráðið reglulega um störf sín.
Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. Eftirlit bankaráðs tekur þó ekki til málsmeðferðar eða ákvarðana í einstökum málum.
Að öðru leyti skal bankaráð sérstaklega sinna eftirtöldum verkefnum:
Staðfesta tillögur seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra að skipulagi bankans.
Ákveða laun og starfskjör fulltrúa í peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd.
Staðfesta starfsreglur peningastefnunefndar, fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar.
Hafa umsjón með innri endurskoðun við bankann og ráða innri endurskoðanda.
Staðfesta kjarasamninga við starfsmenn bankans, fjalla um reglur um lífeyrissjóð þeirra og staðfesta skipun fulltrúa í stjórn hans þegar svo ber undir.
Staðfesta tillögu Seðlabankans til ráðherra um reglur um reikningsskil og ársreikning bankans.
Staðfesta ársreikning bankans.
Staðfesta ákvörðun bankans um eiginfjármarkmið og ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar.
Staðfesta áætlun um rekstrarkostnað bankans sem seðlabankastjóri leggur fram í upphafi hvers starfsárs.
Hafa eftirlit með eignum og rekstri bankans og staðfesta ákvarðanir um fjárfestingar í húsnæði og annarri aðstöðu fyrir starfsemina sem teljast meiri háttar.
Staðfesta gjaldskrá.
Veita skal bankaráði þær upplýsingar um Seðlabanka Íslands og félög í eigu bankans sem nauðsynlegar eru til að ráðið geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Seðlabankastjóri skal jafnan upplýsa bankaráð um helstu þætti í stefnu bankans og um reglur sem hann setur.
Á fundi Alþingis 18. apríl 2018 fór fram kosning sjö manna og jafnmargra varamanna í bankaráð Seðlabanka Íslands. Fyrsti fundur nýkjörins ráðs fór fram 25. apríl 2018 og skipti bankaráð þar með sér verkum,“ segir einnig í yfirlýsingunni.
Aðalmenn:
Gylfi Magnússon formaður
Þórunn Guðmundsdóttir varaformaður
Bolli Héðinsson
Una María Óskarsdóttir
Sigurður Kári Kristjánsson
Jacqueline Clare Mallett
Frosti Sigurjónsson
Varamenn:
Þórlindur Kjartansson
Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir
Hildur Traustadóttir
Valgerður Sveinsdóttir
Kristín Thoroddsen
Ólafur Margeirsson
Bára Ármannsdóttir
Á þessari mynd af bankaráði eru sitjandi frá vinstri: Sigurður Kári Kristjánsson, Gylfi Magnússon formaður og Þórunn Guðmundsdóttir. Standandi eru frá vinstri: Una María Óskarsdóttir, Frosti Sigurjónsson, Bolli Héðinsson og Jacqueline Clare Mallett.