„Það er verið að taka ákvarðanir um stóra hagsmuni í trássi við vilja þjóðarinnar. Aðalmálið er að þjóðin fái að kjósa um svona stór mál yfir höfuð, það finnst mér vera aðalmálið,“ segir Benedikt. S. LaFleur, listamaður og sjósundkappi í samtali við Viljann.
Hann, ásamt Bjarna Jónssyni, rafmagnsverkfræðingi, stofnuðu Lýðræðisflokkinn í byrjun júní í sumar. Flokkurinn nýstofnaði ætlar að boða til borgarafundar sunnudaginn 18. ágúst nk., kl 14.00 í hátíðasal Iðnó, undir yfirskriftinni: Er Ísland til sölu, er lýðræðið í hættu? skv. tilkynningu sem Viljanum barst.
Á dagskránni eru Erpur Eyvindarson, Benedikt Lafleur, Aldís Schram, Kristinn Sigurjónsson, Eva Ísfold Lind, Una María Óskarsdóttir, Styrmir Gunnarsson, Albert Svan, Þórunn Sigurðardóttir og Valur Steindórsson, sem ýmist flytja tölu, ljóð eða lag.
„Fólk úr öllu litrófi stjórnmálanna kemur, en fundurinn er fyrst og fremst hugsaður sem umræðuvettvangur,“ segir Benedikt, og að „efla lýðræðislega þátttöku, leyfa fólki að tjá sig um veigamestu mál í þjóðfélaginu. Láta stjórnvöld vita að þau ráðskist ekki með vilja þjóðarinnar i trássi við hann.“ Helstu mál á dagskrá verði auðlindirnar, jarðeignir og orkumál, tjáningar- og skoðanafrelsið og lýðræðið.