„Ætli einhver einhverstaðar sé hugsi yfir því að mesti stuðningur við baráttumál þingflokks Sjálfstæðisflokksins er úr röðum Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata? Er það ekki vísbending um að maður hafi á röngu að standa þegar maður er sammála þessum flokkum?“
Þessari spurningu veltir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi og fv. bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, upp á fésbókinni í dag. Tilefnið er skoðanakönnun MMR frá í gær um að Evrópusinnar séu helstuð stuðningsmenn þriðja orkupakkans, en bakland ríkisstjórnarinnar sé innleiðingu hans andsnúið.
Elliði er að mörgum talinn ein helsta vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins til framtíðar litið. Tveir fyrrverandi forystumenn flokksins tjá einnig sterka andstöðu sína við orkupakkann í dag; Sturla Böðvarsson, fv. ráðherra og forseti Alþingis og Davíð Oddsson, fv. formaður flokksins og forsætisráðherra. Sá síðarnefndi beinir spjótum sínum sérstaklega að Bjarna Benediktssyni formanni flokksins og segir kúvendingu hans í málinu vera eins og skrattann úr sauðaleggnum.
Var harður stuðningsmaður EES
„Á fyrsta kjörtímabili mínu sem alþingismaður tók ég þátt í að fjalla um og samþykkja EES-samninginn og þá löggjöf sem honum fylgdi og var afgreidd árið 1993. Í lögunum segir m.a.: Samningsaðilar; eru sannfærðir um að Evrópskt efnahagssvæði muni stuðla að uppbyggingu Evrópu á grundvelli friðar, lýðræðis og mannréttinda. Strax í upphafi hafði ég sterka sannfæringu fyrir því að þetta samstarf væri okkur Íslendingum mikilvægt. Og í ljósi þess að við héldum fullkomnum yfirráðum yfir auðlindum hafsins innan fiskveiðilögsögu okkar var enginn vafi í mínum huga að samstarfið við þessar vinaþjóðir okkar væri besti kostur okkar. Betri kostur en aðild að Evrópusambandinu sem vissulega hefur komið í ljós,“ segir Sturla Böðvarsson, fv. forseti Alþingis, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir þar að þróunin innan Evrópusamstarfsins hafi valdið vorbrigðum og væntanleg útganga Breta kalli fram spurningar og mikilli tortryggni gagnvart Evrópusamstarfinu. Ofurvald stórþjóðanna svo sem Þjóðverja og Frakka innan EES gagnvart fámennari þjóðunum virðist ganga úr hófi.
„Umræðan á Alþingi og um allt samfélagið síðustu vikur um svokallaðan þriðja orkupakka hefur verið mögnuð. Þessi þriðji orkupakki leggur tilteknar skyldur á okkar herðar og færir okkur vonandi einhver réttindi í samstarfi þjóðanna. En þessi umfjöllun hefur magnað upp óánægju sem ekki sér fyrir endann á.
Það hefur ekki auðveldað jákvæða afstöðu til málsins af minni hálfu að verða þess var að forsvarsmenn Samfylkingar og Viðreisnar leggja ofuráherslu á að samþykkja þriðja orkupakkann án nokkurs fyrirvara. Þeir flokkar stefna bæði leynt og ljóst að inngöngu í Evrópusambandið gefist færi til þess. Það er því rík ástæða til þess að fara að öllu með gát og tryggja hagsmuni okkar svo sem var gert svo vel árið 1993 og þá ekki síst hvað varðar fiskveiðar og sjávarauðlindina sem við eigum og ráðum yfir.
Nýting orkulinda okkar hefur gefist vel og er okkur mikilvæg. Orkupakkanum er ætlað að setja okkur reglur hvað varðar vinnslu og dreifingu raforku og þá væntanlega í þeim tilgangi að tryggja hagsmuni neytenda á grundvelli hins frjálsa markaðar.
Ef okkur tekst að halda áfram að byggja upp orkufyrirtækin og þá einkum hjá Landsvirkjun, Rarik og Orkubúi Vestfjarða með virkjun vatnsafls, virkjun jarðvarma, virkjun vindorku og virkjun sjávarfalla munu líkurnar aukast á því að það verði okkur hagfellt að selja raforkuna um sæstreng til nálægra landa. Því er það mikilvægast fyrir okkur að tryggja hagsmuni okkar þegar sæstrengur hefur verið lagður.
Það er óforsvaranlegt að samþykkja þriðja orkupakkann án þess að það liggi fyrir hvað gerist á orkumarkaði á Íslandi þegar sæstrengur hefur verið lagður og orkusalan hefst. Það hefur eitt og sér engan tilgang að við ráðum því hvort sæstrengur verði lagður ef orkumarkaðsmálin verða um leið tekin úr okkar höndum þegar sala hefst um sæstreng. Þessari spurningu verða ráðherrar að svara áður en lengra verður haldið enda virðist Landsvirkjun gera ráð fyrir lagningu sæstrengs svo sem sjá má á heimasíðu félagsins,“ segir Sturla ennfremur í grein sinni.
Hótanir og hræðsluáróður eru ósannindi
„Það er ónotalegt að sjá hvernig sumir þeir, sem maður síst vildi, hafa hagað sinni umræðu um hinn svokallaða orkupakka. Og það bætir ekki úr að erfitt er að sjá af málflutningi þeirra hver sé ástæðan. Þeir fullyrða að málið sé smátt í sniðum, það hafi nánast enga þýðingu og snúist í rauninni ekki um neitt. Og að því leyti sem það snúist um eitthvað þá sé í rauninni fyrir löngu búið að afgreiða þau atriði!“
Þetta skrifar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fv. forsætisráðherra í Reykjavíkurbréfi blaðsins um helgina. Hann gagnrýnir þar samherja sína fyrir að berjast á hæl og hnakka og veitast jafnvel að gömlum vinum sínum við að koma þessum „orkupakka“ í gegn, og vísa ekki í aðra skýringu en sinn eigin ótta.
Davíð segir að staða Sjálfstæðisflokksins sé orðin þyngri en tárum taki. Kannanir sýni að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn niður undir 20 prósenta fylgi þótt hið ytra pólitíska umhverfi ætti að vera hagstætt.
„Þótt hálfur áratugur sé liðinn frá óvæntri og óútskýrðri kúvendingu í Icesave, sem feykti burt fylginu, hefur það ekki skilað sér aftur. Hefur flokkurinn þó verið í ýmsum samsteypustjórnum síðan. Því er hampað að pakkamálið sé of flókið fyrir almenning og þess vegna sé áhuginn á því minni en látið sé í veðri vaka.
Ekki vantaði að Icesave væri uppfullt af flóknum orðum og kynningin og offors yfirvalda var ámóta ógeðfellt og núna. Jóhanna lagði samninginn fyrir ríkisstjórn og þingflokka til samþykktar án þess að þýða hann. Það var ekki fyrir nema þaulvana að átta sig á um hvað var að ræða.
Þingflokkur sjálfstæðismanna kyngdi þessu ólánsmáli nú í krafti fyrirvara sem nú er ljóst að eru ekki til sem slíkir.
Ekki vantaði þá að beitt væri ósvífnum fullyrðingum við Icesave-svikin þótt enginn hefði verið svo frumlegur þá að fagna þeim sem „lofsverðum blekkingum“. En almenningur reyndist ekki jafn vitlaus og stjórnmálamennirnir stóluðu á og virðast stóla á nú, eins og nýleg ummæli um að þeir sem (að eigin sögn í könnunum) hafi kynnt sér pakkamálið best séu jákvæðastir fyrir því! Þetta þótti fagnaðarefni þótt í þessum hópi vitringanna hafi meirihlutinn einnig verið á móti málinu eins og í hópi hinna sem minna vissu (deplorable kenningin).
En kannski fólst það helst í því að sá hópur sem gaf sjálfum sér þá einkunn að vera vel upplýstur hafði „keypt“ hinar „lofsverðu blekkingar“.
Nauðsynlegt er að fara rækilega yfir það, hvort nokkur maður hafi sagt við umræður um EES-samninginn, að vildu Íslendingar einhverju sinni nota rétt sinn til að hafna innleiðingu tilskipana sem þeim hentaði ekki, þá myndi sá samningur riða til falls. Hér skal fullyrt að þessar hótanir og hræðsluáróður eru ósannindi. Og þó er þessi hótun eina afsökun ríkisstjórnarinnar fyrir því að keyra þetta varasama mál í gegn. Undirbúningur þess er í skötulíki og engum til sóma sem að því kom.
Í heilt ár hafa staðið mjög afgerandi yfirlýsingar formanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi um málið. Fyrir tveimur vikum eða svo kom önnur yfirlýsing eins og skrattinn úr sauðarleggnum án þess að útskýrt væri hvað hefði breyst.
Við svo búið getur ekki staðið. Varla hafa hinar „lofsverðu blekkingar“ sveiflað flokknum í heilan hring,“ skrifar Davíð ennfremur.