Ofbeldismennirnir hafa allt dagskrárvald á Íslandi í dag

Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi.

„Það kemur nákvæmlega ekkert á óvart að viðræðum hafi verið slitið í dag. Það hefur aldrei verið ætlun forsvarsmanna VR og Eflingar að ná samningum,“ segir Friðjón R. Friðjónsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda KOM og fv. aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

„Það er barnaskapur að halda að slíkt sé hægt, markmið þeirra eru ekki betri kjör félagsmanna heldur upplausn, óreiða og átök. Það ömurlegt að enginn bjóði þeim byrginn,“ segir Friðjón í harðorðri færslu á fésbók í kvöld.

Eftir tíðindi dagsins er mörgum heitt í hamsi á samskiptamiðlum, enda liggur fyrir að hörð átök geti verið framundan með tilheyrandi tjóni fyrir atvinnulífið.

Friðjón undrast að enginn skuli hafa skorað forystumenn verkalýðshreyfingarinnar á hólm.

„Þegar ég spurðist fyrir um hvers vegna enginn bauð sig fram til formanns VR var viðkvæði þeirra sem íhuguðu framboð að enginn vildi gangast undir þær svívirðingar og ofbeldi sem viðbúið var að Gunnar Smári Egilsson og skósveinar hans í verkalýðsfélögunum tveimur myndu ausa yfir viðkomandi,“ skrifar hann.

Og Friðjón bætir við:

„Staðreyndin er að ofbeldismennirnir hafa allt dagskrárvald á Íslandi í dag.“