„Formleg staða málsins er sú, að tekist hefur að koma í veg fyrir að þessar breytingar, eins og þær lágu fyrir í drögunum, nái fram að ganga í bili“, segir Óskar Magnússon, formaður Samtaka Landeigenda, í samtali við Viljann.
Hann segir að ekki líti út fyrir að frumvarp umhverfisráðherra um breytingu á náttúruverndarlögum, svokölluð endurskoðun á ákvæðum um almannarétt, hafi komist á málaskrá Alþingis á vorþingi, en alls 53 athugasemdir bárust við frumvarpsdrögin inni á samráðsgátt stjórnvalda.
„Mér sýnist það vera vegna öflugra viðbragða og andstöðu Samtaka landeigenda, Samtaka sveitarfélaga og fjölmargra annarra, en maður veit ekkert hvað síðar verður“, segir Óskar.
Tillögurnar gangi ótrúlega langt, verið sé að leggja til breytingar á ástandi sem við þekkjum, bændur og ferðaþjónustan, sem eru ekki raunveruleg vandamál, og skapi frekar miklu fleiri vandamál en þær eigi að leysa.
„Í grunninn eru þetta bara sósíalísk sjónarmið“
Spurður hvaða sjónarmið liggi að baki breytingunum á Náttúrulögum, segir hann að gömul almannaréttarsjónarmið frá dögum Jónsbókar, hafi heimilað frjálsa för um landið. „Við erum ekkert á móti hinum gamla almannarétti. Það var ekki heimilt að tálma för gangandi eða ríðandi manna á landi án vegakerfis, sem þurftu kannski að komast stystu leið á milli tveggja punkta, þegar uppi voru allt aðrar aðstæður en í dag.“
Óskar bendir á að eignarrétturinn sé grunnréttur, en almannaréttur sé undantekning frá honum. „Hópferðasamtök vilja síðan auðvitað að allt sé frítt, t.d. skotveiðimenn, útivistarfélög og 4×4-klúbbar sem vilja fara óheft þangað sem þeim sýnist. Í grunninn eru þetta samt bara sósíalísk sjónarmið, andstæð eignarréttinum.“
Ef ákvæði af þessu tagi yrðu samþykkt, væri verið að svipta landeigendur eignarrétti sínum, og gæti það leitt til bótaskyldu ríkisins, hafi viðkomandi haft af honum tekjur. Lítið hafi komið fram í því samhengi.
„Það er ríkið sem leggur þetta til, en á sama tíma stendur yfir verðmat á landi Geysis, sem ekki náðist sátt um, við kaup ríkisins á því. Málið var sett í matsnefndir, sem eru að byggja sínar forsendur um verðmat á heimildum til gjaldtöku. Á sama tíma á að setja þessa lagabreytingu, sem bannar gjaldtöku inn á svæðið“, segir Óskar sem furðar sig á því.
Samkvæmt frumvarpsdrögunum má taka gjald af bílastæði, en ekki aðgangseyri inn á svæðið sjálft, m.a. til að standa fyrir uppbyggingu og viðhald inni á því. „Það getur verið öryggismál að gerðar séu stígar, pallar og tröppur. Svo labbar fólk bara um í drullu og svæðin skemmast ef ekki eru til peningar til að búa til aðstöðu“, segir Óskar og bendir á, að búið sé að loka nokkrum svæðum vegna ágangs og aðstöðuleysis, eins og t.d. við Skógafoss og í Reykjadal o.fl.
„Ekkert af þesskonar uppbyggingu inni á svæðunum flokkast undir þjónustu, skv. frumvarpsdrögunum. Svona ákvæði bara eiga alls ekki heima í náttúruverndarlögum, því þetta er sko sannarlega ekki til þess fallið að vernda náttúruna.“
Ríkið banni sjálfu sér gjaldtöku á Geysi
„Ríkið hefur gengið fram fyrir skjöldu með innheimtu bílastæðagjalda. Nefna má Þingvelli, þar sem innheimtast fleiri hundruð milljónir á ári, sem er langt umfram það sem þarf til að reka bílastæðin,“ segir Óskar og bætir við: „Landeigendur munu þá, ef þetta fer svona í gegn, geta tekið bílastæðagjöld eins og þeim þóknast. Gjald fyrir bílastæði er ekkert merkilegra eða öðruvísi heldur en gjald fyrir aðgang, sem er ókeypis. Þetta er stigsmunur, en ekki eðlismunur.“
En hann segir málið ekki vera svona einfalt, vegna þess að sumsstaðar eru bílastæðin og náttúruperlan ekki í sömu eigu. T.d. eigi ríkið Geysi, en aðrir eigi landið með bílastæðunum. „Þarna væri ríkið því að koma í veg fyrir gjaldheimtu á eigin landi, og fengi engar tekjur til uppbyggingar á hverasvæðinu, þar sem vantar einn og hálfan milljarð strax.“
Spurður hvort ekki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila við undirbúning frumvarpsdraganna segir Óskar„ „Það var „gervisamráð“, margra hagsmunaaðila, t.d. Samtaka landeigenda og Samtaka sveitarfélaga. Við hjá Samtökum landeigenda mættum á þrjá fundi, með vandaðar greinargerðir með lögfræðilegum rökstuðningi, en það er eins og þessir fundir hafi aldrei farið fram, eða þeirra sjónarmiða gætt sem fram komu frá hagsmunaaðilum.“