Ögmundur lætur VG og ríkisstjórnina heyra það: Ósannindi og prinsippleysi

Ögmundur Jónasson fv. ráðherra og fv. þingmaður Vinstri grænna.

„Ísland stöðvar fjárstreymi til Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Gaza – peninga ætlaða til að lina þjáningar þar – en veitir verulegum fjármunum til kaupa á skotfærum til að drepa fólk á vígvelli í Úkraínu. Mótsagnakennt kann einhver að segja en aðrir munu þá benda á að þetta sé í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnar Íslands um allnokkurt skeið, að draga lappirnar á Gaza en styðja hernaðinn í Úkraínu,“ segir Ögmundur Jónasson, fv. ráðherra Vinstri grænna í samtali við Viljann um þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að taka með beinum hætti þátt í vopnakaupum fyrir Úkraínu gegnum samstarf við Tékkland.

Sterkur stuðningur er við ákvörðun íslenskra stjórnvalda um þátttöku við vopnakaup fyrir Úkraínu gegnum Tékkland innan Vinstri grænna og á þingi, sagði Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, í gærkvöldi, en eins og Viljinn greindi frá, mun Ísland verja um tveimur milljónum evra til sameiginlegs verkefnis þar sem Tékkland mun fyrir hönd helstu samstarfsríkja Íslands, útvega skotfæri fyrir stórskotalið Úkraínu sem gegnir lykilhlutverki við varnir landsins.

Heimildamenn Viljans innan stjórnkerfisins, segja að ákvörðunin marki ákveðin þáttaskil þar sem ríkisstjórn með VG innanborðs komi þannig með beinum hætti að vopnakaupum og hernaðaraðstoð. Í stefnu VG er lögð áhersla á útgöngu úr NATO og lögð áherslu á mikilvægi þess að „aðgerðir á alþjóðavettvangi, þar á meðal viðskiptaþvinganir, valdi ekki þjáningu og dauða saklausra borgara. Íslensk stjórnvöld eiga að hafna hernaðaríhlutun, beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um frið og afvopnun sem og að vinna gegn vopnaframleiðslu og vígbúnaði,“ eins og það er orðað í stefnu flokksins, sem birtist á heimasíðu hans.

Nú eru það byssukúlurnar og búnaður fyrir stúlkur í stríð

Ögmundur Jónasson kveðst hryggur yfir ákvörðun ríkisstjórnarinnar og þátttöku síns gamla flokks í henni.

„Ríkisstjórnin hefur látið umtalsvert íslenskt skattfé renna til vopnaflutninga til Úkraínu, til færanlegs hersjúkrahúss og nú eru það byssukúlurnar og búnaður fyrir stúlkur í stríð. Þetta er ömurlegt hlutskipti fyrir þjóð sem stærir sig af því, þegar það þykir henta, að vera herlaus og friðelskandi – einn stjórnarflokkurinn segist auk þess vera á móti aðild að NATÓ!

Allt eru það að sjálfsögðu ósannindi eins og dæmin sanna. Svo leyfir þetta fólk sér að tala um alþjóðalög og prinsipp en í þessum málum eru prinsipp hjá því sjálfu hvergi sjáanleg,“ segir hann og bætir við:

„Ég lýsi hryggð yfir því hvernig komið er. Ísland sem ætti að tala fyrir friði kyndir undir ófriði bæði í orði og í verki.“