„Í dag kveðjum við formlega jökulinn Ok en hann er fyrstur íslenskra jökla til að hverfa á tímum loftslagsbreytinga. Landslagið er vissulega enn þá fallegt, en fegurðin dvínar í augum okkar sem vitum hvað var þarna áður og hvers vegna það er horfið.“
Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, en hún tók þátt í minningarathöfn í dag þar sem áður var jökullinn Ok og segir að í dag rísum við líka upp, efldari en nokkru sinni í baráttunni fyrir náttúrunni.
Á Vísindavef Háskólans er bent á að eitt megineinkenni jökla sé að þeir skríði undan eigin þunga. Til þess að það gerist þurfa þeir að vera um 40 til 50 metra þykkir.

„Okjökull var fyrir rúmri öld 15 ferkílómetra, meira en 50 m þykkur, kúptur jökull. Þá hneig hann fram undan þunga sínum vegna þess að ís verður seigfljótandi við að verða svona þykkur og þungur. Núna er ísinn aðeins um 15 m þykkur og flatarmálið langt innan við 1 ferkílómetri. Við það að missa þykkt sína og þunga hættir ísinn að vera seigfljótandi og hættir því að skríða og þar með er hann hættur að vera jökull,“ segir ennfremur á Vísindavefnum.
Samkvæmt þessu má draga stórlega í efa, að brotthvarf Oksins hafi eitthvað með það að gera sem í daglegu tali er nefnt hnattræn hlýnun af mannavöldum.

Í dag er tími aðgerða
„Við stöndum frammi fyrir fordæmalausri stöðu. Í dag er tími aðgerða því afleiðingar hamfarahlýnunar blasa við um heim allan. Hitabylgjur, flóð, þurrkar og öfgakenndar sveiflur eru birtingarmyndin og valda neyð og hörmungum.
Við hér á Íslandi stefnum að kolefnishlutleysi í síðasta lagi 2040 en við verðum að sýna árangur strax í þeirri vegferð. Nú þegar eru aðgerðir hafnar samkvæmt aðgerðaáætlun stjórnvalda sem kynnt var í fyrra og um leið höfum við bætt við frekari aðgerðum. Við munum sjá nýja græna skatta og lækka álögur á rafhjól sem lið í að draga úr bílaumferð.

Með verkefnum í landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis sem eru þegar farin af stað munum við binda 50% meira kolefni árlega árið 2030 en við gerum í dag. Til að setja umfangið í samhengi endurheimtum við í fyrra votlendi á stærð við um 63 fótboltavelli en árið 2022 munum við endurheimta votlendi á stærð við 700 fótboltavelli. Sama ár verða landgræðsluverkefni á svæði á stærð við tæplega 17.000 fótboltavelli og skógrækt á öðrum ríflega 3000 völlum.
Við verðum líka að nýta hvert tækifæri á alþjóðavettvangi til að láta í okkur heyra og stilla okkur þar upp í fararbroddi með öðrum þjóðum sem vilja leggja sitt af mörkum. Við verðum að gera þetta saman: fyrir jöklana, fyrir framtíðina og fyrir okkur sjálf,“ segir forsætisráðherra í færslu á fésbókinni.