Ólafur Björn Loftsson ráðinn sem afreksstjóri GSÍ

Ólafur Björn Loftsson hefur verið ráðinn sem afreksstjóri Golfsambands Íslands. Ólafur mun hefja störf þann 1. mars næstkomandi. Gregor Brodie hefur látið af störfum en hann hefur gegnt því starfi síðastliðin tvö ár.

Frá þessu er greint á vef Golfsambandsins. „Ég er þakklátur fyrir þetta tækifæri og fullur tilhlökkunar fyrir þessu spennandi starfi. Ég hef mikla ástríðu fyrir golfíþróttinni og hef sérstakan áhuga á að styðja sem best við okkar afrekskylfinga.

Ég hef fengið góða innsýn inn í íslenskt afreksgolf bæði sem afrekskylfingur og þjálfari og mun sú reynsla klárlega nýtast í starfinu,“ segir Ólafur sem mun sinna starfi afreksstjóra í fullu starfi.