Samkvæmt heimildum Viljans eru litlar líkur á að Ólafur Ísleifsson alþingismaður verði efstur á lista uppstillinganefndar Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Ólafur gekk til liðs við flokkinn á kjörtímabilinu eftir að honum og Karli Gauta Hjaltasyni var vísað úr Flokki fólksins.
Guðfinna Jóhanna Guðfinnsdóttir, lögmaður og fv. borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, var oddviti Miðflokksins í kjördæminu fyrir síðustu kosningar, en náði ekki kjöri.
Viljinn hefur heimildir fyrir því að gerð verði tillaga um Vilborgu Þórönnu Kristjánsdóttur sem nýjan oddvita Miðflokksins í Reykjavík norður. Er þar horft til þess markmiðs að jafnmargir karlar og konur skipi oddvitasæti Miðflokksins í kjördæmunum sex í komandi kosningum.
Uppstillinganefnd Miðflokksins í Suðurkjördæmi er ekki með Karl Gauta á sínum lista, en félagsfundur verður um tillögu uppstillinganefndar í vikunni. Þar er gerð tillaga um Birgi Þórarinsson alþingismann í efsta sæti og Ernu Bjarnadóttur hagfræðing í 2. sæti.
Ekki er talið útilokað að stuðningsmenn Karls Gauta fari fram á oddvitakjör í kjördæminu þar sem tveir sitjandi þingmenn vilji báðir oddvitasætið, en einnig er talið koma til greina að hann bjóði sig fram á höfuðborgarsvæðinu.