Meirihluti alls fólks á vinnumarkaði er nú á framfæri hins opinbera, nálægt 50 þúsund manns eru á atvinnuleysisskrá eða í skertu starfshlutfalli og þiggja laun í gegnum hlutabótaleiðina. Sá fjöldi á eftir að aukast verulega á komandi vikum. Búið er að slökkva á verðmætasköpun einkageirans, virðiskeðjan rofnað, eftirspurn neytenda nánast gufað upp og markaðir fyrir verðmætar útflutningsafurðir eins og ferskan fisk eru farnir. Það hefur orðið algjör snögghemlun í atvinnulífinu. Flest fyrirtæki eru að brenna upp lausafé samtímis því að skuldirnar aukast og litlar sem engar tekjur að koma í kassann. Þegar faraldrinum linnir standa þau að óbreyttu uppi lemstruð og fjárhagslega veikburða.
Þessa dökku sviðsmynd teiknar Hörður Ægisson ritstjóri Markaðarins upp í leiðara Fréttablaðsins í dag. Hann bendir á að þessi staða hafi teiknast upp á örfáum vikum. Hliðaráhrif harðra sóttvarnaaðgerða séu efnahagslegar hamfarir. Við blasi stórfellt atvinnuleysi, fjöldagjaldþrot fyrirtækja, gríðarlegur efnahagssamdráttur og hratt versnandi fjárhagsstaða ríkisins sem er nauðbeygt til að dæla peningum inn í kerfið – til fólks og fyrirtækja – og þannig lágmarka tjónið fyrir samfélagið í heild sinni.
„Allir þurfa að taka á sig skert lífskjör með einum eða öðrum hætti og verkefnið, hjá stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins, er að halda sem flestum í vinnu. Samtal við ASÍ um leiðir til að ná því markmiði hefur engu skilað og virðist tilgangslaust. Það er ólán okkar sem þjóðar hvaða fólk hefur þar valist til forystu,“ segir hann.
Hörður segir að heiðarlegasta svarið við spurningunni, hversu djúp kreppan verði, sé að það hafi enginn hugmynd um það.
„Enginn hefur talað fyrir því að bjarga eigi öllum fyrirtækjum landsins. Það er í senn ómögulegt og óskynsamlegt. Fyrirséð er samt að ríkið þarf að koma í meiri mæli til móts við sum þeirra, meðal annars í formi styrkja til að greiða tímabundið fastan rekstrarkostnað, rétt eins og gert hefur verið í sumum nágrannaríkjum okkar. Að öðrum kosti fara þau öll saman, koll af kolli, í þrot síðar meir og samfélagslegi kostnaðurinn fellur á skattgreiðendur. Viðbragð stjórnvalda, ríkisins og Seðlabankans, þarf að markast af þeirri staðreynd að við erum líklega að sjá fram á djúpa og langvinna kreppu – ólíka nokkurri sem við höfum áður upplifað – og við getum því miður ekki leyft okkur þá bjartsýni að mæla glasið hálffullt. Botninum hefur alls ekki verið náð.“