Ólánið eltir Bestseller fjölskylduna

Hjónin á bak við Bestseller og ASOS veldin. Harmur er að þeim kveðinn eftir hryðjuverkin í Sri Lanka.

Ólukkan eltir fjölskyldu Anders Holch Povlsens, en það er ein af ástæðunum fyrir því að „Bestseller-fjölskyldan“ hefur ávallt haldið sig út af fyrir sig og frá sviðsljósinu. Þetta segir Søren Jakobsen, höfundur nokkurra bóka um danska yfirstétt og ættir sem eiga viðskiptaveldi í samtali við danska Extrabladet.

„Þetta snertir mig, vegna þess að ég hef fylgt fjölskyldunni og mér virðist ólánið hafa elt hana. Þetta er mesta svartnætti sem hægt er að upplifa,“ segir Jakobsen.

Þegar talsmaður Bestseller fyrirtækisins, Jesper Stubkier, staðfesti í tölvupósti að þrjú af fjórum börnum Anne og Anders Holch Povlsen hafi farist í hryðjuverkaárásinni á Sri Lanka á páskunum, var einnig óskað eftir því að friðhelgi einkalífs fjölskyldunnar verði virt. Tregða hennar við að koma fyrir almannasjónir hefur valdið því að engar opinberar myndir eru til af börnunum. Aldur þeirra er 15, 12, 10 og 5 ára og enn er ekki vitað, hver þeirra létust.

Jakobsen telur engan vafa leika á því að Anders Holch Povlsen, ríkasti maður Danmerkur, hafi haft öryggi fjölskyldunnar í fyrirrúmi í ferðinni til Sri Lanka. „Hann hefur örugglega gert persónulegar öryggisráðstafanir. Þessi hörmulegi atburður verður einkar þungbær, vegna þess að þessi fjölskylda hefur gert allt sem hægt er til að vernda sig. Þau hafa lagt sig eftir öryggi á borð við það sem krónprinsinn hefur,“ segir Søren Jakobsen, og vísar í fjölskyldusöguna, en í henni er að finna ástæður hlédrægni fjölskyldunnar.

Fjölskyldan ofsótt vegna auðæfa sinna

Árið 2003 var ungum manni rænt á Indlandi. „Mannræningjarnir töldu að ungi maðurinn væri Anders Holch Povlsen. Það hefur auðvitað haft áhrif á fjölskylduna,“ segir Søren Jakobsen, en ungi maðurinn endaði með að verða frelsaður, sem betur fer.

Fimm árum fyrr, lentu foreldrar Anders Holch Povlsen í fjárkúgara, hermanni sem kallaði sig „Hróa hött.“ Sá braust inn á heimili fjölskyldunnar á Gyllingnæs-búinu og skildi eftir hótunarbréf þar sem hann hótaði dauða og ofbeldi ef faðirinn og stofnandi Bestseller, Troels Holch Povlsen, greiddi honum ekki háa fjárhæð.

Ástæðan fyrir því að maðurinn fór að ofsækja fjölskylduna, er talið mega rekja til þess að hann hafði lesið um auðæfi hennar í fjölmiðlum. Eftir það dró fjölskyldan sig í hlé.

„Fjölskyldan hefur lagt sig fram um að fara varlega og þetta atvik nú, mun einungis bæta í hlédrægni hennar. Öll heimsins auðæfi fá þetta atvik nú ekki bætt. Þetta er harmleikur sem ekki er hægt að óska neinum,“ segir Søren Jakobsen. Börnin birtast ekki á opinberum myndum, né heldur eiginkonan, Anne Holch Povlsen, sem er á aðeins örfáum myndum. Seinast náðist mynd af henni í tengslum við afmælisdag krónprinsins, þar sem þau voru saman á rauða dreglinum. Árið 2010 voru þau ljósmynduð saman þegar Margrét Þórhildur Danadrottning hélt upp á afmælið í Árósum.

Nú munu nánustu aðstandendur slá skjaldborg um fjölskylduna, skv. Søren Jakobsen, enda er fjölskyldan náin. Móðir Anders, Merete Bech Povlsen, býr á Gyllingnæs-búinu, faðirinn, Troels Holch Povlsen, býr í Englandi ásamt bróðurnum, Niels Holms Povlsen. „Erfitt er að sjá fyrir sér hvar og hvenær jarðarför barnanna muni eiga sér stað. Einnig þarf að vernda eina eftirlifandi barnið,“ segir Søren Jakobsen.

Ríkasti maður Danmerkur

Anders Holch Povlsen, er 46 ára gamall, og hefur metinn valinn auðugasti maður Danmerkur með eignir upp á 41,6 milljarða danskra króna, af Bloomberg.

Hann er til heimilis að Constantinsborg nálægt Árósum. Hann erfði 28 ára gamall fatafyrirtækið Bestseller, sem foreldrar hans, Merete og Troels Holch Povlsen, stofnuðu árið 1975 og er í dag eini eigandi fyrirtækisins. Bestseller er á bak við vörumerki eins og Vero Moda, Only og Jack & Jones. Að auki á Anders Holch Povlsen stóran hlut fyrirtækja eins og nemlig.com, hönnunarfyrirtækið Hay, Normal, Zalando, Stylepit og er stærsti hluthafinn í hinni risavöxnu netverslun, ASOS.

Undanfarin ár hefur Anders Holch Povlsen keypt svo mikið land í Skotlandi, að bandaríska tímaritið Forbes hefur titlað hann stærsta jarðeiganda landsins. Anders Holch Povlsen fjárfestir ekki aðeins í eignum og landi erlendis. Nýlega keypti hann byggingu fyrir 82 milljónir danskar krónur í Árósum.