„Nú neyðist ég til að leggja orð í belg. Fólk hefur áhyggjur af þriðja orkupakkanum — spyr áleitinna spurninga um fullveldisafsal og sjálfræði þjóðarinnar yfir orkuauðlindum sínum. Viðbrögðin? Fúkyrði og dylgjur um hugarfar þeirra sem efast: Efasemdarmönnum (sem eru af ýmsum toga og koma úr ýmsum áttum) er öllum skipað í einn hóp sem sakaður er um þjóðernisofstopa og popúlisma,“ segir Ólína Þorvarðardóttir, fv. þingmaður Samfylkingarinnar.
„Er ekki ástæða til að ræða þetta málefnalega? Málið snýst ekkert um ættjarðarást. Það snýst um hagsmuni Íslendinga. Hvernig væri nú að endurvekja kröfuna um auðlindaákvæði í nýrri stjórnarskrá til þess að verja þjóðina fyrir eignamyndun og ásælni í orkuauðlindir hennar, og gera kröfu um að frá því verði gengið áður en lengra er haldið með orkupakkana?
Hvar er sú umræða? Ég heyri hana ekki hjá málsvörum samfélagslegrar ábyrgðar og alþjóðasamstarfs.
Ég les bara blaðagreinar þar sem efasemdarfólkinu eru gerðar upp skoðanir, efast um hvatir þess og tilgang af því að í hópnum eru Miðflokksmenn og Flokksfólksins menn.
En í hópnum eru fleiri. Fjöldi fólks úr öllum stjórnmálaflokkum hefur efasemdir og rökstuddar spurningar sem ekki hafa fengist svör við,“ segir Ólína.
Hún vísar til þess að Eiríkur Bergmann prófessor hafi lýst einkennum þjóðernispopúlisma í umræðunni og tengt við efasemdarfólkið.
„Eitt einkennið ku vera alhæfingar og uppnefni þar sem rýrð er varpað á mótaðilann. Hver er þá sekur um popúlisma í þessari umræðu?“