Öllum efasemdum mínum um orkupakkann hefur verið mætt

Páll Magnússon, fv þingmaður Suðurkjördæmis og fv. útvarpsstjóri. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Ég var í hópi þeirra þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins sem höfðu mest­ar efa­semd­ir um inn­leiðingu á 3. orkupakk­an­um – og í haust lýsti ég því yfir op­in­ber­lega að væri hann að koma til kasta Alþing­is eins og málið leit út þá myndi ég greiða at­kvæði gegn inn­leiðing­unni,“ segir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaðinu í dag.

Hann segir einkum þrjár ástæður fyrir andstöðu sinni:

„Í fyrsta lagi voru uppi vel rök­studd­ar efa­semd­ir um að það valda­framsal sem fæl­ist í inn­leiðing­unni stæðist ís­lensku stjórn­ar­skrána. Um þetta voru deild­ar mein­ing­ar meðal fræðimanna en ég kaus að halla mér að þeim sem lengst gengu til varn­ar stjórn­ar­skránni; þeim sem viðkvæm­ast­ir voru fyr­ir því að hugs­an­lega væri verið að ganga gegn henni. Þar fór Stefán Már Stef­áns­son fremst­ur í flokki.

Í öðru lagi komu fram áhyggj­ur af því að ís­lensk stjórn­völd hefðu ekki end­an­legt ákvörðun­ar­vald um það hvort sæ­streng­ur til raf­orku­flutn­ings yrði lagður milli Íslands og Evr­ópu. Það kynni að ráðast af markaðsaðstæðum og ef einkaaðilar t.d. kynnu að sjá sér hag í því að leggja slík­an streng þá væri þeim það frjálst.

Í þriðja lagi virt­ist ekki ljóst hvort Ísland yrði með ein­hverj­um hætti und­ir­selt sam­eig­in­legri raf­orkupóli­tík Evr­ópu, t.d. varðandi verðlagn­ingu til not­enda, jafn­vel þótt eng­inn væri streng­ur­inn.“

Hef ekki skipt um skoðun

Og þingmaðurinn segist nú spurður hvers vegna hann hafi skipt um skoðun á 3. orkupakk­an­um og sé ekki leng­ur and­víg­ur inn­leiðingu hans.

„Svarið er: Ég hef ekki skipt um skoðun. For­send­ur fyr­ir inn­leiðingu orkupakk­ans á Íslandi hafa breyst; þær eru ekki leng­ur hinar sömu og ég var and­víg­ur.

Í fyrsta lagi er nú búið þannig um hnút­ana að stjórn­ar­skrár­vand­inn er ekki leng­ur til staðar – að mati sömu var­færnu fræðimann­anna og ég fylgdi að mál­um þegar þeir sögðu að hann væri fyr­ir hendi.

Í öðru lagi er nú hafið yfir all­an vafa að það verður eng­inn sæ­streng­ur lagður til raf­orku­flutn­ings án þess að Alþingi taki um það sér­staka ákvörðun.

Í þriðja lagi er nú al­veg á hreinu að á meðan eng­inn er sæ­streng­ur­inn hef­ur raf­orkupóli­tík í Evr­ópu, á borð við þá sem snýr t.d. að verðlagn­ingu, ekk­ert gildi og enga þýðingu á Íslandi. Með öðrum orðum: inn­leiðing 3. orkupakk­ans leiðir ekki af sér hærra raf­orku­verð til not­enda á Íslandi.

Og nú spyr ég sjálf­an mig: skipti ég um skoðun? Svarið er aft­ur nei. Öllum efa­semd­um mín­um var mætt. Og ég er spurður: stang­ast þetta ekki á við álykt­un síðasta lands­fund­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins um þessi mál? Enn er svarið nei. Sú álykt­un var svohljóðandi: „Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hafn­ar frek­ara framsali á yf­ir­ráðum yfir ís­lensk­um orku­markaði til stofn­ana Evr­ópu­sam­bands­ins.“ Ekk­ert af þeim þing­mál­um sem nú liggja fyr­ir um 3. orkupakk­ann fel­ur í sér að gengið sé gegn þess­ari álykt­un. Af sam­töl­um mín­um við sjálf­stæðis­fólk á fyrr­nefnd­um lands­fundi réð ég að flest­ir höfðu áhyggj­ur af 3. orkupakk­an­um af sömu eða svipuðum ástæðum og ég rakti hér að fram­an. Þær áhyggj­ur eru óþarfar,“ segir Páll Magnússon.