Japönsk kona sem starfar sem leiðsögumaður hefur greinst aftur með Kórónaveiruna. Hún hafði fengið veiruna fyrir nokkru síðan, en virtist hafa náð sér að fullu. Er þetta fyrsta dæmið um endurtekna sýkingu af veirunni, að sögn Lundúnablaðsins Telegraph.
Forsætisráðherra Japan hefur tilkynnt að frá og með mánudeginum verði öllum skólum lokað í landinu í viðleitni til að hindra útbreiðslu veirunnar sem fer nú eins og eldur í sinu um heiminn.
Konan, sem er á fimmtugsaldri og frá Osaka, greindist fyrst með veiruna í janúar eftir að hafa leiðsagt hópi kínverskra ferðamanna frá borginni Wuhan. Hún var útskrifuð af sjúkrahúsi þann 1. febrúar sl. Í gær greindist hún svo aftur með veiruna eftir að hafa kvartað yfir særindum í hálsi og brjóstverkjum undanfarna daga.
Um 190 hafa nú greinst með Kórónaveiruna í Japan, en auk þess greindust um 700 um borð í skemmtiferðaskipi í sóttkví við Tókýó á dögunum.