Reykjavíkurborg, Háskóli Íslands og Þjóðskrá brutu þágildandi persónuverndarlög með vinnslu persónuupplýsinga fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí í fyrra. Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar á vef stofnunarinnar, sem hafði gert frumkvæðisathugun á málinu.
Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar, sem nú heitir Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa, og mannréttindastjóri borgarinnar, Anna Kristinsdóttir, fer fyrir, hafði verið falin ábyrgð, framkvæmd, umsjón og kynning verkefnisins, sem lagt hafði verið til af borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, 5. febrúar 2018 og samþykkt í borgarráði. Verkefnið fól m.a. í sér sendingu skilaboða til kjósenda, og átti að vera tilraun til að auka kjörsókn ákveðinna hópa í sveitarstjórnarkosningunum, í samvinnu við Háskóla Íslands. Verkefnið var unnið að hluta í samvinnu við formann öldungaráðs borgarinnar.
Reykjavíkurborg notaði upplýsingarnar til að senda illa merkt, gildishlaðin og jafnvel röng skilaboð til ungra kjósenda
Reykjavíkurborg notaði upplýsingarnar til að senda illa merkt, gildishlaðin og jafnvel röng skilaboð til ungra kjósenda, t.a.m. um skyldu til að kjósa, sem ekki sé fyrir hendi í íslenskum lögum. Skilaboðin hafi jafnframt verið til þess fallin að hafa áhrif á kosningahegðun þeirra, segir í úrskurði Persónuverndar. Einnig voru skilaboð send til kvenna 80 ára og eldri og erlendra ríkisborgara í sama tilgangi, en ekki var heldur farið að persónuverndarlögum við vinnslu upplýsinga um þessa hópa.
Vinnsla og afhending Þjóðskrár Íslands á persónuupplýsingum til Reykjavíkurborgar um kyn og ríkisfang erlendra ríkisborgara var að auki ósamrýmanleg lögunum, segir í úrskurði Persónuverndar.
Alvarlegar athugasemdir við vinnslu stærsta sveitarfélagsins
Átelur Persónuvernd Reykjavíkurborg fyrir að hafa ekki veitt Persónuvernd upplýsingar um alla þætti málsins eftir að stofnunin óskaði sérstaklega eftir því, en stofnunin gerir alvarlegar athugasemdir um hversvegna hún hafi aðeins fengið upplýsingar um afmarkaðan þátt málsins frá borginni og ósamræmis hafi gætt í þeim svörum sem fengust.
Segir í úrskurðinum að í svörum Reykjavíkurborgar hafi ekki komið fram fullnægjandi skýringar á því hvers vegna Persónuvernd voru ekki veittar upplýsingar um alla þætti málsins eftir að stofnunin óskaði sérstaklega eftir því með bréfi, dagsettu 14. maí 2018.
Teljist það alvarlegt að ábyrgðaraðili að vinnslu persónuupplýsinga, sem í þessu tilviki er stærsta sveitarfélag landsins, skuli láta undir höfuð leggjast að svara fyrirspurnum eftirlitsvalds með skýrum og fullnægjandi hætti.
Verði það að teljast ámælisvert í ljósi eftirlitshlutverks stofnunarinnar.