Ómálefnaleg stjórnsýsla eftirlitsstofnana alvarleg meinsemd í samfélaginu

Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar.

„Það er auðvitað margs að minnast frá árinu sem er að ljúka. Stórviðskipti og samrunar meðal annars, sem stefna að hagræðingu og blikur á lofti í ferðaþjónustunni, m.a. tengt stöðu WOW. Ef ég á að nefna eitt atriði er það samt barátta Þorsteins Más Baldvinssonar og Samherja gegn valdníðslu Seðlabankans, sem lauk á árinu með fullum sigri Samherja eftir 7 ára baráttu. Að mínu mati er ómálefnaleg stjórnsýsla sumra eftirlitsstofnana alvarleg meinsemd í íslensku samfélagi, sem skaðar atvinnulíf og lífskjör. Það eru hins vegar ekki margir sem hafa afl og úthald til að taka slaginn við það ofurefli,“ segir Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, í samtali við Viljann um árið sem er að líða og árið 2019 sem senn gengur í garð.

Hvaða fyrirtæki/einstaklingar hefur að þínu mati  skarað framúr á árinu?

„Mér finnst allir sem ég sé nefnda í fjölmiðlum í þessu samhengi prýðilega að því komnir. Ég nefni þar aftur Þorstein Má og Samherja. Auk þess að leiða uppbyggingu eins glæsilegasta sjávarútvegsfyrirtækis í heimi og og vel heppnaðar fjárfestingar í öðrum greinum, þá hefur hann tekið slaginn fyrir allt atvinnulífið í baráttu við misbeitingu valds opinberra stofnana, sem í andrúmslofti eftirhrunsáranna hefur í ýmsum tilvikum vikið leikreglum réttarríkisins til hliðar og ekki náð að rétta sig af enn.“

Er hætta á verkföllum og alvarlegum vinnudeilum hér á landi eftir áramót?

„Ég leyfi mér að vona að ekki þurfi að koma til þess þótt útlitið virðist tvísýnt. Það blasir við að launahækkanir sem leiða til verðbólgu fela í sér meira tjón en ávinning fyrir langflesta, þar sem flestir skulda verðtryggt ráðstöfunartekjur kannski 2-3 ára, ef ég man það rétt. Það hlýtur því að vera mikilvægt að leita lausna á afmörkuðum vandamálum eins og húsnæðisvanda tekjulágra, með öðrum hætti en almennum launabreytingum.

Mér virðist líka að ríkið hafi tekið til sín mikið af launahækkunum fyrirtækja í gegnum tekjutengingu ýmissra greiðslna. Í sjálfu sér ekki óeðlilegt, en leiðir til þess að launafólk upplifir ekki bætt lífskjör í samræmi við hækkanir á launakostnaði fyrirtækja. Þetta þarf að skoða vel og ríkið þarf að skila af þessum ávinningi í gegnum skattabreytingar og aðgerðir í húsnæðismálum, sem nýtast þar sem skórinn kreppir.“

Hvað telur þú að muni einkenna árið 2019?

„Ég tel að ef niðurstaða kjarasamninga verður ekki fjarri því sem skynsamlegt getur talist, þá eigi árið 2019 góða möguleika á að verða ágætis ár í efnahagslegu tilliti. Til svo skamms tíma litið tel ég líka skipta miklu máli að WOW haldi flugi, svo ekki verði truflun á aðlögun ferðaþjónustunnar að rólegri vexti en verið hefur síðustu misseri.“