Önnur bylgja veirunnar í haust gæti orðið mun skæðari

LSH.

Forstjóri Smitvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) varar við því að önnur bylgja kórónuveirunnar Covid-19 geti skollið á heimsbyggðina í haust og orðið mun skæðari en sú sem geisar nú þar sem hún fari saman við upphaf hinnar árstíðabundnu inflúensu.

Hvetur hann til þess að gætt verði fyllstu varúðar á næstu mánuðum og misserum af þessum sökum, í viðtali sem birtist í gær í Washington Post.

„Sá möguleiki er fyrir hendi að næsta atlaga veirunnar að þjóð okkar næsta vetur verði jafnvel enn erfiðari viðfangs en sú sem nú hefur gengið yfir,“ segir Robert Redfield, forstjóri CDC.

Hann bætir við, að honum finnist fólk ekki almennilega gera sér grein fyrir þeirri ógn sem geti verið framundan.

Álag á heilbrigðiskerfið geti orðið of mikið þegar fólk leitar þangað bæði vegna veirunnar og flensunnar á sama tíma.