Borgaryfirvöld í Beijing í Kína hafa fært viðbúnað sinn upp á næstefsta stig vegna snarfjölgunar nýrra smita af kórónuveirunni Covid-19 undanfarna daga og telja nú flestir óhætt að segja að önnur bylgja veirunnar sé skollin á í landinu, fremur en að um einangruð tilvik sé að ræða.
Kórónuveiran kom einmitt upp í Wuhan í Kína fyrir áramót. Deilt er um hvort það var í nóvember eða desember eða jafnvel fyrr, en ljóst er að skömmu fyrir áramót höfðu heilbrigðisyfirvöld áttað sig á nýjum faraldri sem fór eins og eldur í sinu. Hann hefur síðan náð að fara hratt og örugglega út um alla heimsbyggðina og setja efnahagskerfi flestra landa á hliðina, eins og allir þekkja.
Fram kom í ríkissjónvarpinu kínverska í kvöld að skólum í Beijing verði lokað að nýju og tekin upp fjarkennsla á Netinu. Heimavistum verður lokað og nemendur sendir heim og heilu hverfin og borgarhlutarnir settir í einangrun til þess að reyna að hamla útbreiðslu veirunnar.
Fyrsta staðfesta nýsmitið var greint á fimmtudag, en þá hafði ekkert smit greinst í borginni í 50 daga. Þeim hefur snarfjölgað á hverjum degi síðan og aðeins sum tilfellanna eru rakin til vinsæls matarmarkaðar í borginni. Lagt hefur verið bann við samkomuhaldi og öllum borgarbúum verður gert skylt að gangast undir skimun áður en þeim er leyft að yfirgefa borgina.