Opinberir starfsmenn ættu aldrei að leiða launaþróunina

Guðrún Hafsteinsdóttir verður innanríkisráðherra.

Stöðugleikinn, sú mikilvæga forsenda öflugs iðnaðar og blómlegs efnahagslífs, er ekki sjálfgefinn í okkar efnahagslífi. Staðan á vinnumarkaði er grafalvarleg. Eftir fordæmalausa hagsveiflu sjáum við skýr merki kólnunar í hagkerfinu — í fyrsta sinn í sjö ár. Lamandi verkföll beint ofan í þessa stöðu gætu valdið miklum skaða. Um það er ekki deilt. Því er jafnvel hótað að skaða sem mest.

Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, sem var endurkjörin formaður Samtaka iðnaðarins á Iðnþingi í gær, en hún segir að krafan um kauphækkanir nú sé umfram það svigrúm sem efnahagslífið veiti okkur. 

„Það gengur auðvitað ekki upp — en þegar það er nefnt við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar þá vísa þeir oft og iðulega í að þess hafi heldur ekki verið gætt við úrskurð kjararáðs. Og þar erum við sammála,“ sagði hún.

„Launahækkanir stjórnmálamanna og embættismanna á einu bretti um rúm 40% voru algjörlega út úr korti. Opinberir starfsmenn ættu aldrei að leiða launaþróunina í samfélaginu. Á Iðnþingi 2017 fordæmdi ég þessar hækkanir í boði kjararáðs og ég fordæmi þær líka hér og nú. Þær voru fráleitar,“ sagði Guðrún og benti á að atvinnulífið í landinu verði að sjá um að leggja línur um launaþróunina í landinu.

Ljóst er að rof hefur orðið á milli húsnæðiskostnaðar og launaþróunar 

„Það verður aldrei meiri velsæld í þessu landi en verðmætasköpunin gefur tilefni til. Allt annað er skammgóður vermir. Spyrjið bara þá sem voru launamenn fyrir 30 og 40 árum og voru í stanslausri baráttu við verðbólgu og lágt atvinnustig. Það vill enginn upplifa það aftur.“

Formaður Samtaka iðnaðarins sagði að deiluna yrði að leysa. Atvinnurekendur vilji að sjálfsögðu geta greitt starfsfólki sínu góð laun og öll viljum við að fólk geti lifað góðu lífi á Íslandi.

„Ekki er einvörðungu við kjararáð að sakast vegna þeirrar stöðu sem upp er komin á vinnumarkaði. Staðan á húsnæðismarkaði leikur þar stórt hlutverk enda þurfa allir þak yfir höfuðið. Ljóst er að rof hefur orðið á milli húsnæðiskostnaðar og launaþróunar vegna þess að of lítið hefur verið byggt. Þar skipta útspil ríkis og sveitarfélaga miklu máli. Samtök iðnaðarins hafa lengi barist fyrir umbótum á byggingamarkaði og áttum við okkar þátt í því að átakshópur ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins var skipaður sem lagði til umbætur í 40 liðum til að bregðast við húsnæðisvandanum. Margar þeirra snúa að vandamálum sem við höfum lengi bent á og því eru það virkilega jákvæð tíðindi að samstaða hafi náðst um lausnir,“ sagði Guðrún ennfremur.