Opnað verði fyrir möguleika annarra en ríkisins til að selja áfengi

Þorsteinn Víglundsson varaformaður Viðreisnar.

Á dagskrá Alþingis í dag er frumvarp til breytinga á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Samkvæmt frumvarpinu verður opnað fyrir möguleika annarra en ríkisins til að selja áfengi í sérverslunum með áfengi. Ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum er varðar rekstur Vínbúðanna og ekki er verið að opna fyrir sölu á áfengi í matvöruverslunum. Janframt er gert ráð fyrir að auglýsingar á áfengi verið heimilar.

„Mál þetta snýst fyrst og síðast um viðskiptafrelsi. Að einokun ríkisins verði afnumin en áfram verði byggt á sölu áfengis í sérverslunum líkt og nú er,“ segir Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

„Það er athyglisvert í umræðu um þessi mál að þeim sjónarmiðum sem haldið er á lofti gegn afnámi ríkiseinokunar snúa fyrst og fremst að lýðheilsu. Að aukið aðgengi muni auka neyslu. Það er athyglisvert í ljósi þess að þeim rökum hefur sjaldnast verið haldið á lofti á undanförnum árum samhliða stórfelldri fjölgun vínbúða, lengri opnunartíma og staðsetningu þeirra í öllum helstu verslunarmiðstöðvum landsmanna. Oftar en ekki eru þessar verslanir ýmist við hliðina á matvöruverslun eða í grennd við slíka verslun. Ég hef ekki sé hávær mótmæli gegn þessari þróun. Fremur hefur borið á háværum mótmælum sé Vínbúð lokað í einstökum sveitarfélögum,“ segir hann.

Áfengismenning og áfengisneysla hefur líka gjörbreyst

Í greinargerð með frumvarpinu segir að frá því að sameinaðri verslun áfengis og tóbaks var komið á fót árið 1961 hafi allt almennt viðskiptaumhverfi gjörbreyst og samfélagið orðið í senn opnara og fjölbreyttara.

„Áfengismenning og áfengisneysla hefur líka gjörbreyst á sama tíma. Vín er orðið órjúfanlegur hluti gróskumikillar matarmenningar og innlend framleiðsla áfengis er að festa sig í sessi og orðin iðnaður sem er nátengdur landkynningu og þjónustu við sívaxandi fjölda ferðamanna. Þá hefur aðgengi að áfengi á undanförnum árum og áratugum stóraukist og útsölustöðum ríkisins með áfengi hefur fjölgað. Opnunartími áfengisverslana ríkisins hefur verið rýmkaður, úrvalið hefur aukist og netverslun verið komið á fót. Vínveitingaleyfum um land allt hefur samhliða stórfjölgað á síðastliðnum 20 árum.

Á sama tíma hefur fyrirkomulag á einkaleyfi ríkisins á smásölu áfengis verið í grundvallaratriðum óbreytt í nær 95 ár, eða síðan sterkt áfengi var aftur gert að löglegri neysluvöru árið 1922. Eina stóra og markverða breytingin sem innleidd hefur verið í lög öll þessi ár er lögleiðing bjórs 1. mars 1989. Slíkt einokunarfyrirkomulag ríkisins með löglega neysluvöru hamlar eðlilegri og heilbrigðri samkeppni og skerðir atvinnufrelsi fólks. Löngu er tímabært að breyting verði á því fyrirkomulagi sem hér um ræðir og er tilgangur frumvarpsins að lögfesta nauðsynlegar breytingar í þá veru,“ segir ennfremur í greinargerðinni.