Orkumálaráðherrann boðar afsögn: Óvíst hvort hann kemur hingað til lands

Rick Perry, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, hyggst segja af sér embætti á næstunni, að líkindum í lok nóvember, að því er bandarískir fjölmiðlar greina frá.

Perry, sem var áður ríkisstjóri Texas áður en hann tók sæti í ríkisstjórn Donalds Trump fyrir tveimur árum, er væntanlegur hingað til lands um næstu helgi vegna alþjóðaráðstefnunnar Artic Circle. Ekki er ljóst á þessari stundu hvort tíðindin um fyrirhugaða afsögn hans, koma í veg fyrir hingaðkomu hans.

Perry hefur verið mjög í sviðsljósi bandarískra fjölmiðla undanfarna daga í ljósi mikilla samskipta hans við Úkraínustjórn, en ferli er nú hafið á bandaríkjaþingi til að þess að ákæra Trump forseta til embættismissis fyrir að fara fram á rannsókn úkraínskra stjórnvalda á viðskiptaumsvifum Joe Biden og sonar hans þar í landi, en Biden er líklegur keppinautur Trumps um Hvíta húsið á næsta ári.