Orkupakkanum verði vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.

„Auðvitað eykur það líkurnar á sátt að tala saman, sérstaklega þegar samtalið einkennist af einlægum vilja til að hlusta og bregðast við þeim sjónarmiðum sem fram koma í því samtali,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi og áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum í samtali við Viljann í dag.

Fundur forystu Sjálfstæðisflokksins með flokksfólki í Valhöll á laugardag vakti mikla athygli, en þar kom skýrt fram að stefna stjórnarflokkanna er að afgreiða þriðja orkupakkann í þinginu nú á mánaðarlok, þrátt fyrir mikla andstöðu við hann meðal almennra flokksmanna, ekki síst í Sjálfstæðisflokknum.

Elliði segir að orkupakkamálið megi ekki skoðast í of miklu tómarúmi.

„Það mál er birtingamynd af annarri og stærri mynd sem birtist mögum á þann hátt að við séum of leiðitöm í mikilvægu samstarfi við aðrar þjóðir. Að EES samningurinn, svo góður sem hann er, sé að færa okkur smátt og smátt inn í Evrópusambandið. Það hefur verið fráleitt að hlusta stuðningsmenn OP3 stilla þeim sem hafa uppi efasemdir, sem andstæðingum samstarfs við aðrar þjóðir. Eða að þar með vilji þeir uppsögn á EES samningnum. Slík strámennska skilar ekki árangri. Við, eins og aðrar þjóðir, þurfum að eiga í samstarfi en eðlileg krafa er að slíkt samstarf sé tvíhliða og að í því felist ekki framsal á rétti þjóðarinnar til sjálfstærar ákvörðunartöku í mikilvægum málum,“ segir hann.

Elliði segir magnað að sama fólk og gerði mikið með álit Baudenbeckers á OP3 geri síðan afar lítið með þá skoðun þessa sama sérfræðings að EES samningurinn brjóti í bága við stjórnarskrá okkar. Jafnvel látið eins og að það skipti ekki máli af því að samningurinn sé okkur svo mikilvægur.

„Einn stór þáttur í þessu er einnig sú trú margra að embættismannakerfið og eftirlitsiðnaðurinn sé að tröllríða samfélaginu og hreinlega að skerða athafnafrelsi okkar og kosta okkur ómælt fé. Við sáum þetta til að mynda í persónuverndarlöggjöfinni sem kostar okkur milljarða á hverju ári, við sjáum þetta í ESA, við sáum þetta í Samkeppniseftirlitinu og hreinlega út um allt.

Hvarvetna eru komnir innlendir og erlendir embættismenn til að fylgjast með okkur og sumar eftirlitsstofnanirnar jafnvel með yfir þjóðlegt vald. Það er því von að einhvern tímann sé kallað eftir því að lína verði sett í sandinn og varhugur goldinn. OP3 er sýnu meira áríðandi því þar er um að ræða náttúruauðlind sem við þurfum að gæta vel að.

Þjóðaratkvæðagreiðsla ekki vænlegur kostur

Ég held líka að þetta mál hafi líka liðið fyrir það að í raun á það hvergi málsvara. Það hvarflar til dæmis ekki eina mínútu að mér að þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins séu í raun hrifnir af þessu máli eða að þeir væru að beita sér fyrir innleiðingu þess ef þrýstingurinn væri ekki í gegnum EES samstarfið. Rökin fyrir innleiðingu á OP3 eru enda þau helst að þetta skipti í raun engu fyrir okkur. Á sama tíma er því svo haldið fram að ef við innleiðum hann ekki jafngildi það uppsögn á EES samningnum. Þar fara ekki saman hljóð og mynd og þessum orðum fylgir ekki sannfæring,“ bætir hann við.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, ræddi orkupakkann á fjölmennum fundi í Valhöll á laugardag. /Viljinn:Erna Ýr Öldudóttir

Elliði kveðst þó hreint ekki sannfærður um að þjóðaatkvæðagreiðsla sé vænlegur kostur.

„Ég myndi langtum frekar vilja sjá mitt góða fólk hlusta eftir áhyggjum fólks og jafnvel þótt þau sannarlega geti keyrt málið í gegn, þá er betra að staldra við og vísa því til að mynda til umfjöllunar sameiginlegu EES nefndarinnar.

Stjórnmálamenn sem þannig koma fram stækka af gjörðum sínum. Hvað varðar það hvort flokkurinn komist heill í gegnum þessa umræðu þá er ég sannfærður um það. Stjórnmál eru list hins mögulega. Þar með er ekki ætíð hægt að gera allt sem stjórnmálamenn vilja. Þetta snýst meira um að nálgast hvert verkefni með það að leiðarljósi að ná svo miklum árangri sem mögulegt er. Það kann því að fara svo að enginn verði alsæll með niðurstöðu umfjöllunar en ég veit að sjálfur treysti ég engum betur til að leiða þetta mál til farsællar lausnar en Bjarna Benediktssyni formanni okkar og Guðlaugi Þór utanríkisráherra.“