Orkupakki 3 enn eitt skref í einkavæðingu orkumála hér á landi

„Fyrir rúmum 10 árum var innleiddur Orkupakki 2. Í því fólst einkavæðing á orkumarkaði. Þetta fór í gegnum þingið á sínum tíma, án þess að við föttuðum hvað þetta þýddi. Núna vitum við það. Þetta var einkavæðing. 
HS veitur og HS Orka eru góð dæmi um það sem mun gerast með Landsvirkjun & Orkuveituna. Markaðsvæðing er einkavæðing. Svo einfalt er það.“

Þetta segir Sigmar Vilhjálmsson, fjölmiðlamaður og framkvæmdastjóri, í færslu á fésbókinni í dag. 

Hann segir þá sjálfstæðismenn sem hlynntir eru orkupakkanum vera að ganga erinda þeirra afla sem vilja eignast hlut í þessum félögum. 

„Ég er kapitalisti, ég trúi á samkeppnismarkað og einkaframtakið, en orkumálin eru bara annað mál. Það er galið að ætla að láta einkafyrirtæki stýra orkuverði heimila og fyrirtækja á Íslandi. Í dag njótum við eins lægsta orkuverðs í heiminum, fyrirtækin okkar eru að skila hagnaði í ríkisskassann og þjónusta þessara fyrirtækja er frábær. Hvað þarf að laga?“ bætir hann við.

Sigmar segir orkupakka þrjú vera enn eitt skref í átt að einkavæðingu orkumála hér á landi og hann sé þeirrar skoðunar að við Íslendingar eigum fremur að fara út úr orkupökkum eitt og tvö í stað þess að fara áfram inn í orkupakka þrjú, fjögur og fimm.

Að lokum spyr Sigmar hvort hann sé einn um að finnast skrítið að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem hafi verið svarinn andstæðingur Evrópusambandsins gegnum árin, ferðist nú um landið og haldi fundi um kosti þess að innleiða orkupakkann.

„Hvaða „litla og einfalda“ tilskipun EES hefur fengið viðlíka kynningu í sögunni? Hvaða pressa er þetta á máli sem hann hefur sjálfur sagt að skipti í raun engu máli? Ef eitthvað skiptir ekki máli, þarf þá að berjast með kjafti og klóm fyrir því að ná málinu í gegn? Þarf að ferðast um landið og halda fund eftir fund? Ef þetta er ekki nóg til að finnast rauðu ljósin vera á sveimi, þá veit ég ekki hvað,“ segir Sigmar Vilhjálmsson.