Framsóknarflokkurinn styður innleiðingu þriðja orkupakkans. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins og samgönguráðherra, en hann hafði áður lýst áhyggjum af því að ekki hefði tekist að sannfæra þjóðina um ágæti málsins. Miðstjórn Framsóknarflokksins hafnaði innleiðingunni í vetur.
Miðstjórn Framsóknarflokksins samþykkti svohljóðandi bókun á haustfundi sínum:
„Orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Miðstjórn Framsóknarflokksins áréttar mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum Íslendinga og minnir á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér. Auk þess hefur Ísland enga tengingu við orkumarkað ESB og Framsóknarflokkurinn telur slíka tengingu ekki þjóna hagsmunum landsmanna. Því skal fá undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans.“
Síðari umræða um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um þriðja orkupakkann hefst í dag og er útlit fyrir að meirihluti sé fyrir málinu á þingi, enda þótt meirihluti landsmanna sé því andsnúinn. Sigurður Ingi segir á fésbókinni í dag að Framsóknarflokkurinn vilji standa vörð um hagsmuni Íslendinga.
„Við stöndum vörð um hagsmuni heildarinnar. Ef það er ástæða til að setja EES-samninginn í uppnám þá munu ábyrg stjórnvöld gera það. En þá aðeins að ástæða sé til. Aldrei eiga stjórnvöld að sýna af sér svo ábyrgðarlausa hegðun að fórna mikilvægasta milliríkjasamningi Íslendinga nema að ástæðan sé svo rík að slíkt verði ekki umflúið,“ segir hann.
Nærum ekki óttann
„Það er hættuleg braut að ætla að gera EES-samninginn að óvini. Það er hættuleg braut að næra umræðuna með tortryggni og ótta. Og ótta við hvað? Jú, við það samstarf sem við höfum átt við nágrannaþjóðir okkar í Evrópu. Ég er ekki með þessu að mæla ESB bót. Það er félagsskapur sem Ísland á að standa utan við. EES-samningurinn hefur hins vegar fært okkur Íslendingum mikil lífsgæði. Viðskiptahagsmunir okkar eru augljósir en samningurinn hefur ekki síður áhrif á unga Íslendinga sem geta stundað nám í háskólum um alla Evrópu þaðan sem þeir snúa heim með þekkingu og reynslu sem er íslensku samfélagi nauðsynleg og verður mikilvægari með hverju árinu sem líður.
Ísland er í mikilli og harðnandi samkeppni um ungt fólk og krafta þess. Ég fullyrði það að án EES-samstarfsins væri erfiðara að byggja upp þau lífsgæði á Íslandi sem ráða í framtíðinni því hvar ungt og metnaðarfullt fólk velur sér að vinna og búa með fjölskyldum sínum,“ segir formaður Framsóknarflokksins ennfremur og hvetur landsmenn til að ganga ekki inn í „í stjórnmál reiðinnar, stjórnmál óttans, og gerum þau að okkar lögheimili og varnarþingi.“
Og lokaorð hans eru þessi:
„Við höfum hlustað. Við höfum kallað til sérfræðinga. Hlustað á álit. Við höfum komist að niðurstöðu. Hagsmunir Íslands eru tryggðir með fyrirvörum og aðgerðum sem eru skrifaðar eftir ráðgjöf helstu sérfræðinga og taka tillit til þeirra áhyggjuradda sem hafa verið uppi í samfélaginu.“