Öryggi dómara þannig, að engin leið er að reka þá þrátt fyrir þennan dóm

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður.

„Mannréttindadómstóll Evrópu er ekki æðsta dómsstig á Íslandi, og niðurstaðan er því ekki bindandi nema í þjóðréttarlegum skilningi,“ segir Einar Gautur Steingrímsson, hæstaréttarlögmaður, í samtali við Viljann.

„Nú þegar þessi deild Mannréttindadómstóls Evrópu hefur dæmt, þá hafa stjórnvöld þrjá mánuði til að skjóta niðurstöðunni til yfirdeildar. Mér sýnist tveir af dómurunum vera í yfirdeildinni, annarsvegar Róbert Spanó, sem greiddi atkvæði með dómnum, og hins vegar deildarforsetinn, Paul Lemmens, sem greiddi atkvæði á móti, auk fimmtán annarra nýrra dómara sem við vitum ekkert hvaða skoðun eiga eftir að hafa.“

„Í stuttu máli snýst niðurstaða meirihlutans um, að þau töldu að réttarkerfið verði að hafa þá ásýnd að dómarar séu hafnir yfir allan vafa. Minnihluti dómsins taldi ákvörðunina óþarflega dramatíska miðað við tilefnið,“ segir Einar Gautur, sem segir að meira hafi verið að dæma kerfið, heldur en að málsmeðferðin sjálf hafi falið í sér ranglæti gagnvart kæranda.

Engin formleg réttaráhrif, en þjóðréttarleg skylda til aðlögunar

Dómar Mannréttindadómstóls Evrópu hafa formlega séð engin réttaráhrif á íslandi, en leggja þá þjóðréttarlega skyldu á, að íslensk lagaframkvæmd lagi sig að þeim, að sögn Einars Gauts. Dómar muni því ekki falla sjálfkrafa úr gildi og dómararnir verða ekki látnir víkja skv. þessu. 

Íslensk lög gildi á Íslandi, jafnvel þó þau fari gegn þjóðréttarlegum skuldbindingum.

„Það þarf því að bregðast við dómnum, ef hann fer ekki til yfirdeildar. Íslenska ríkið er skyldugt til að bregðast við dómnum, en verði það ekki gert, getur enginn gert neitt í því,“ segir Einar Gautur.

Hann bætir við: „Öryggi dómara í starfi er þannig, að engin leið er að reka þá þrátt fyrir þennan dóm, nema Hæstiréttur snúi sínu fordæmi við,“ segir Einar Gautur, sem telur mikilvægt að menn skoði málið allt af yfirvegun og flani ekki að neinu.