Öryggi dönsku þjóðarinnar vegur þyngra en málfrelsið

Föstudaginn 25. janúar féll dómur í bæjarþingi Kaupmannahafnar í máli sem höfðað var gegn Jakob Scharf, fyrrv. yfirmanni PET, það er eftirgrennslanaþjónustu lögreglunnar. Scharf var dæmdur í fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi og til að greiða sekt fyrir að hafa miðlað trúnaðarupplýsingum til Mortens Skjoldagers, blaðamanns við dagblaðið Politiken. Efninu var miðlað til að það birtist í bók blaðamannsins um Scharf, Syv år for PET – Sjö ár fyrir PET.

Fyrir utan fangelsisrefsinguna skal gera upptæk ritlaun Jakobs Scharfs vegna bókarinnar, alls 397.625 d.kr. 7,3 m. ísl. kr.

Yfirstjórn PET taldi að fyrrv. forstjórinn hefði brotið gegn þagnarskyldu sinni í 28 tilvikum. Ákæruvaldið taldi að þessi atriði hefðu ekki átt að birtast í bókinni með vísan til þjóðaröryggis.

Í dóminum segir að það séu ekki aðeins atvikin sjálf sem sagt er frá sem eigi að liggja í þagnargildi heldur verði einnig að líta á umgjörðina. Með lýsingum á einstökum atvikum sé jafnframt dregið fram í dagsljósið það sem ber að veita trúnað, t.d. starfsaðferðir PET, samstarfsaðilar, heimildarmenn og annað sem geti spillt fyrir eftirgrennslanaþjónustunni við úrvinnslu framtíðarverkefna.

Jakob Scharf neitaði sök í málinu.

Politiken verður einnig að borga 

Annar dómur hefur fallið í tengslum við bók Jakobs Scharfs sem kom út í október. Þessi dómur féll 18. janúar 2019 gegn fjölmiðlafyrirtækinu JP/Politikens Hus og aðalritstjóra Politikens fyrir að hafa brotið gegn lögbanni á útgáfu bókarinnar.

Christian Jensen aðalritstjóri var dæmdur til að greiða 50.000 d.kr. í sekt um 1 m ísl. kr. og JP/Politikens Hus var dæmt til að greiða 100.000 d. kr í sekt um 2 m. ísl. kr.

Dómarinn taldi að öryggi dönsku þjóðarinnar vægi þyngra en málfrelsisákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Af vardberg.is, birt með leyfi.