Ósáttir við að vera bendlaðir við andúð á innflytjendum

Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

Hákon Bragi Magnússon, Agnar Már Júlíusson, Halldór Fannar Kristjánsson og Sigurfreyr Jónasson skipuleggja kynningu sem fram fara á í dag samstarfi við European Security Academy (ESA), sem vakið hefur mikla athygli og umtal. Hún er kynnt þannig, „Íslendingar sem sinna öryggisstörfum og/eða löggæslu á sjó eða landi, eða hyggjast starfa sem slíkir á Íslandi eða erlendis njóti þjálfunar hjá European Security Academy (ESA).“

Viljinn hitti forsprakka kynningarinnar í gær og vildi kynna sér ástæður þess að hún fer fram hér á landi, en ýmsir fjölmiðlar fjölluðu um hana í gær, þar sem hún var sett í samhengi við öfgahægrimenn og andúð á innflytjendum.

Sema Erla Serdar, Egill Helgason og Samtök herstöðvaandstæðinga lýstu m.a. áhyggjum sínum:

„Er það umhugsunarefni að öfl sem ítrekað hafa daðrað við verstu birtingarmyndir kynþáttahaturs og útlendingaandúðar skuli óáreitt fá að skipuleggja námskeið á hóteli í miðri Reykjavík með áherslu á vopnaburð og hermennsku,“ sagði Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, við Fréttablaðið.

Aðspurðir vilja þeir ekki kannast við neitt slíkt, þeir séu fyrrum nemendur úr skólanum og áhugamenn sem vildu kynna skólann fyrir Íslendingum, og fengu til þess Roger Odeberger, sem er í forsvari fyrir ESA í Skandinavíu.

Ekki standi til að halda nein námskeið á vegum skólans á Íslandi, þau fari einungis fram í Póllandi. Kynningin nú sé kostuð af ESA.

Ekki tengd neinum stjórnmálasamtökum

Spurðir um Maríu Magnúsdóttur, stjórnarmann Frelsisflokksins, sem sagðist „sækja fundinn í þeirri von að læra að verja sig ef til átaka kemur vegna straums innflytjenda og flóttamanna til landsins,“ að því er Stundin greindi frá, segjast Hákon Bragi, Agnar Már og Halldór Fannar ekki þekkja hana. Þeir segja að kynningin sé ekki tengd starfsemi neinna stjórnmálasamtaka, hún sé ókeypis og opin öllum.

Halldór Fannar segir að Sigurfreyr, sem er með Vakur – samtök um evrópska menningu, hafi ekki haft aðra aðkomu að viðburðinum en þá, að sjá um facebook síðu ESA kynningarinnar, enda búi hann í útlöndum. Hann hafi þó komið þeim í samband við Roger Odeberger, sem heldur kynninguna fyrir hönd ESA. Hann segir ekki um nein skipuleg samtök á vegum ESA á Íslandi að ræða, facebook síðan European Security Academy in Iceland hafi einungis verið stofnuð um þessa kynningu.

Hákon Bragi hefur æft hjá ESA í Póllandi, og er vottaður lífvörður og skipagæslumaður.  „ESA er mjög flottur og góður skóli, það var alþjóðlegur hópur með mér á námskeiðunum, karlar og konur frá öllum heimshornum, m.a. hópur frá Bangladesh.“

Hákon Bragi óttast að umfjöllun fjölmiðla í gær geti haft slæm áhrif á starf sitt og sjálfsvarnarklúbb sem hann segist vera andlit fyrir og sé að reyna að stofna:

„Það er t.d. grunnregla hjá mér að gera ekki upp á milli fólks, við metum einstaklinga, ekki það hvaðan fólk kemur, hvernig það er á litinn eða á hvað það trúir. Ég er afar ósáttur við að mynd af mér sé notuð við frétt sem fjallar um andúð á innflytjendum,“ segir hann og vísar til umfjöllunar Stundarinnar um málið, en við hana birtist mynd af honum þar sem hann mundar byssu.

Agnar Már hefur einnig æft hjá ESA: „Ég er með próf í gæslu á hættusvæðum og skipagæslu frá ESA í Póllandi. Ég kynntist frábæru fólki á námskeiðunum, t.d. frá Nígeríu, Kenýa, Rússlandi og Brasilíu og ég er enn í sambandi við sum þeirra. Gæsla á hættusvæðum, annað prófið sem ég er með, felur m.a. í sér að gæta starfsmanna hjálparstofnana, fréttamanna og stjórnmálamanna sem þurfa að fara inn á hættuleg svæði og átakasvæði.“

Forstjóri ESA segir það vera falsfréttir að skólinn hafi þjálfað öfgamenn

Viljinn hafði samband við Bartosz Bryl, forstjóra ESA í Póllandi, og spurði hann út í þau atriði sem fram hafa komið í íslenskum fjölmiðlum. Bryl undrast umfjöllunina sem skólinn hans og fyrirhuguð kynning um starfsemi skólans hefur fengið hér á landi og bendir á að ESA starfi undir eftirliti pólskra stjórnvalda og í samræmi við reglur Evrópusambandsins og NATO.

„Við værum ekki búnir að reka starfsemi ESA í meira en 25 ár, ef við færum ekki eftir lögum og reglum,“ segir Bryl.

Hann segir skólann starfa náið með stjórnvöldum og þurfa að ganga í gegnum eftirlit með starfsemi sinni árlega.

Aðspurður að því hvort að meintir hægri öfgamenn úr Azov Battalion hafi komið og þjálfað hjá ESA í Póllandi, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum á Íslandi og í úkraínska fréttamiðlinum Kyiv Post, sagði Bryl það vera falsfrétt, sem breskur miðill hafi upphaflega komið af stað og hafi þaðan dreifst í aðra miðla, m.a. í Úkraínu, Póllandi, Slóvakíu o.fl.

Fréttin hafi verið hrakin af breskum öryggisstarfsmanni sem segist þekkja til málsins, en þar kemur fram að ESA hafi aldrei formlega þjálfað Azov Battalion, sem tilheyrir sérsveitum úkraínskra stjórnvalda, heldur hafi tveir ESA þjálfarar á eigin vegum með 10 daga námskeið í Úkraínu boðið nokkrum úr þeirra röðum, að vera með árið 2015. 

Bryl segir að engir hópar stjórnvalda erlendis frá, fái að koma í þjálfun hjá ESA í Póllandi án þess að fyrir liggi samþykki pólskra stjórnvalda. ESA sé vottaður af og í samstarfi við bresk öryggis- og vottunarfyrirtæki og hefur leyfi til að útskrifa fólk í umboði þeirra.  

„Security Industry Authority (SIA) er bresk ríkisstofnun sem vottar lífvarða- og öryggisfyrirtæki. Breski staðalinn er viðurkenndur sem hæsti staðallinn í heiminum þessum geira. Þegar nemendur klára lífvarðarpróf, skipagæslupróf og sjúkraliðapróf hjá okkur þá hljóta þeir jafnframt vottun SIA í Bretlandi, í gegnum City & Guilds og Highfield International, sem eru á meðal vottunar- og samstarfsaðila ESA.“ 

Öfgafólk kemst ekki á námskeið

„Það er alveg útilokað að ESA myndi taka öfgahópa eða öfgaeinstaklinga inn á námskeið. Fólk sem sækir um að fá að koma til ESA í Póllandi í þjálfun þarf að skila hreinu sakarvottorði, læknisvottorði, sem staðfestir andlega og líkamlega heilsu, og gera grein fyrir ástæðum þess að þau vilja koma í þjálfun. Glæpamenn og öfgamenn fá ekki að koma á námskeið hjá skólanum.“

Hann segir þó ekki útilokað að hægt sé að finna myndir af „hverjum sem er“ í stuttermabolum frá skólanum, þar sem slíkur varningur sé einfaldlega í sölu á netinu.

Viljinn spurði hann þá hvort að einhver nemenda skólans hafi orðið uppvís af því að taka þátt í starfi öfgahópa eða glæpum og hann svaraði: „Nei, í 25 ára sögu skólans, þá hefur það enn ekki gerst, sem betur fer.“

Við þjálfum fólk frá löndum úti um allan heim, mörg múslimaríki eru t.d. viðskiptavinir okkar. 

Spurður hvort að fólk af öllum kynþáttum, kynhneigð og trúarbrögðum séu velkomnir við skólann, svaraði hann: „Já, að sjálfsögðu. Við þjálfum fólk frá löndum úti um allan heim, mörg múslimaríki eru t.d. viðskiptavinir okkar. Við leggjum okkur fram um að nemendum líði vel, konur, samkynhneigðir og fólk af öllum kynþáttum, þjóðernum og trú eru nemendur okkar. Sem dæmi bjóðum t.d. upp á tilbeiðsluaðstöðu og halal-mat fyrir múslima, sé óskað eftir því. Í raun bjóðum við upp á hvaðeina sem gestir okkar þarfnast og leggjum okkur fram við að uppfylla óskir þeirra,“ segir Bryl.

Hann nefnir sem dæmi um viðskiptavini skólans, sem séu t.d. stjórnvöld í Bangladesh sem sendi lífvarðasveitir kvenna og karla til sín, aðilar frá bandarískum stjórnvöldum, sérsveit stjórnvalda á Möltu gegn hryðjuverkum, Bopa-sérsveit brasilískra stjórnvalda og lögreglu og fangaverði í Mexíkó ásamt hópum, fyrirtækjum og einstaklingum sem hyggja á starfsframa í öryggisgæslu og tengdum greinum.