ÖSE mun aðstoða við endurskoðun siðareglna Alþingis

Ingibjörg Sólrun Gísladóttir.

Tveir sérfræðingar frá Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) heimsækja Alþingi dagana 3.–4. febrúar í tengslum við vinnu sem nú stendur yfir við endurskoðun siðareglna fyrir alþingismenn. Frá þessu segir í tilkynningu frá Alþingi.

Drög að breyttum siðareglum fóru til umsagnar siðanefndar Alþingis og Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE í nóvember síðastliðnum. Í kjölfar þess sendi ÖSE bréf í desember þar sem vakin var athygli á reynslu og sérþekkingu stofnunarinnar á málum sem varða siðferðileg viðmið fyrir þjóðkjörna fulltrúa. Ýmiss konar aðstoð var boðin, m.a. að fá til Íslands sérfræðinga ÖSE til að ræða við þingmenn og skrifstofu Alþingis um endurskoðunina á siðareglum fyrir alþingismenn. 

Úr varð að tveir sérfræðingar, Marcin Walecki, forstöðumaður skrifstofu lýðræðisvæðingar, og Jacopo Leone, sérfræðingur á sviði lýðræðisstjórnunar, koma til landsins og heimsækja þingið 3. og 4. febrúar. Þeir munu hitta og eiga fundi m.a. með forseta Alþingis, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, forsætisnefnd og lagaskrifstofu þingsins, formönnum þingflokka og ráðgefandi siðanefnd Alþingis.