Ótækt að samþykkja frumvarp um fóstureyðingar óbreytt

Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir ótækt að Alþingi samþykki frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um fóstureyðingar óbreytt í vikunni.

Hún rifjar upp í aðsendri grein í Morgunblaðinu um helgina, upp heimsókn sína sem biskup á Landspítalann í vetur og segist hafa varið góðum tíma á hinum fjöl­mörgu deild­um sjúkra­húss­ins.

„Mann­gildi og mann­v­irðing blasti hvarvetna við, þar sem gildi, framtíðar­sýn og hlut­verk sjúkra­húss­ins miða að því að sjúk­ling­ur­inn sé ávallt í önd­vegi. 

Skemmti­legt þótti mér að hitta starfs­fólk á hinum ólíku deild­um sjúkra­húss­ins sem átti per­sónu­leg tengsl við kirkj­una, var í sókn­ar­nefnd­um, kór­um, syn­ir eða dæt­ur presta og þannig mætti áfram telja. 

Á ein­um gangi vöku­deild­ar­inn­ar var áhuga­vert og upp­lýs­andi vegg­spjald. Þar voru mynd­ir af stálpuðum börn­um og frísk­um, nöfn og fæðing­ar­dag­ar og upp­lýs­ing­ar um að öll voru þau fyr­ir­bur­ar, þ.e.a.s. öll höfðu þau fæðst fyr­ir til­sett­an tíma. Ef ég man rétt voru þar ein­stak­ling­ar sem fæðst höfðu eft­ir rúm­lega 22 vikna meðgöngu en inn­an við 23 vikna.

Frétt­ir ber­ast nú af því að Alþingi muni í næstu viku af­greiða um­deilt frum­varp um svo­kallað þung­un­ar­rof. Ég sendi Alþingi um­sögn um frum­varpið fyr­ir ára­mót og vil birta kjarn­ann úr því hér, því ég tel ótækt að Alþingi samþykki frum­varpið óbreytt. 

Ég styð þann hluta frum­varps­ins um að kon­ur taki sjálf­ar hina erfiðu ákvörðun, það eitt og sér er fram­för frá því sem var.

Kallar eft­ir umræðu um mann­gildi, mann­helgi og mann­skiln­ing

Tvennt er það helst í frum­varp­inu sem ég tel sér­stak­lega um­hugs­un­ar­vert. 

Ann­ars veg­ar sú breyt­ing á hug­taka­notk­un sem lögð er til, þar sem hug­takið þung­un­ar­rof er nú notað í stað þess sem áður var, fóst­ur­eyðing. Hið nýja hug­tak vís­ar á eng­an hátt til þess lífs sem sann­ar­lega bær­ist und­ir belti og er vís­ir að nýrri mann­veru. Sam­kvæmt krist­inni trú okk­ar er lífið heil­agt, náðar­gjöf sem Guð gef­ur og Guð tek­ur. Það er hlut­verk manns­ins að varðveita það og vernda eft­ir fremsta megni og bera virðingu fyr­ir mann­helg­inni, sköp­un­inni og skap­ar­an­um. Það er mis­vís­andi að nota þetta nýja hug­tak í þessu viðkvæma sam­hengi þar sem hug­takið vís­ar ekki til þessa vax­andi nýja lífs.

Agnes Sigurðardóttir, biskup yfir Íslandi. Ljósmynd: kirkjan.is

Hins veg­ar sú breyt­ing á tím­aramm­an­um sem lögð er til, þ.e.a.s. að þung­un­ar­rof verði heim­ilt fram að 22. viku, sbr. 4. gr. frum­varps­ins. Dæm­in þekkj­um við þar sem börn hafa fæðst eft­ir það skamma meðgöngu, bragg­ast og lifað, eins og starfs­fólk Land­spít­al­ans birt­ir á göng­um sín­um. 

Sam­fé­lag okk­ar hef­ur á und­an­förn­um ára­tug­um fundið jafn­vægi á milli hinna ólíku sjón­ar­miða um rétt hinn­ar verðandi móður yfir eig­in lík­ama og rétt fóst­urs til lífs, þrátt fyr­ir þær mót­sagn­ir sem því fylgja. Þar sem 12 vikna tím­aramm­inn hef­ur verið studd­ur sjón­ar­miðum heil­brigðis­vís­inda, mann­rétt­inda og í fram­kvæmd sem bestri þjón­ustu fé­lags­ráðgjafa og annarra fag­stétta við þær fag­leg­ustu aðstæður sem völ er á. Hinar nýju til­lög­ur raska því jafn­vægi, að mínu mati, og vekja jafn­vel á ný grund­vall­ar­spurn­ing­ar, sem við ætt­um auðvitað alltaf að spyrja okk­ur að varðandi mann­helg­ina og fram­gang lífs hér í heimi. 

Ég kalla eft­ir umræðu um mann­gildi, mann­helgi og mann­skiln­ing. Frum­varpið vek­ur fjölda spurn­inga og verði það samþykkt óbreytt tel ég að sag­an muni leiða í ljós að þar hafi sam­fé­lagið villst af leið,“ segir biskupinn ennfremur.