Ótrúlegur gangur í söfnun þriggja vestfiskra kvenna

Hólmfríður Bóasdóttir (vinstra megin á mynd) Steinunn Guðný Einarsdóttir (fyrir miðju) og Tinna Hrund Hlynsdóttir Hafberg (hægra megin). Myndin er tekin fyrr á árinu, á afmæli Tinnu þegar samkomubann og nándarreglur voru enn framtíðarmúsík en ekki veruleikinn, eins og í dag.

Ótrúlegur gangur er í söfnunarátaki þriggja framtakssama kvenna á Vestfjörðum, en þær tóku sig til í vikunni og hófu söfnun fyrir heilbrigðistækjum sem aldeilis hefur undið upp á sig.

Tinna Hrund Hlynsdóttir Hafberg stofnaði félagið Stöndum saman Vestfirðir árið 2016 ásamt tveimur vinkonum sínum. Það hefur látið gott af sér leiða í samfélaginu; safnað fyrir ýmsum tólum og tækjum fyrir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, lögregluna á Vestfjörðum, björgunarsveitir og slökkvilið.

„Í fyrradag hófum við langstærstu söfnunina okkar hingað til en eftir samtal við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða var ákveðið að safna fyrir tveimur BiPap ytri öndunarvélum en þær kosta saman rúmlega 7 milljónir,“ segir Tinna í samtali við Viljann.

Daginn eftir, aðeins 18 klukkustundum eftir að söfnunin hófst var markmiðinu náð!

Þær stöllur settu sig þá aftur í samband við Gylfa Ólafsson, forstjóra HVest og spurðu hvað væri næst á óskalistanum. Svarið kom skjótt, það vantaði fjórar súrefnissíur og ótrúlegt en satt: Seinna sama dag var búið að safna fyrir þeim líka.

Eftir þriðja samtalið við Gylfa, fengust þær upplýsingar, að næst á óskalistanum væri stórt og dýrt tæki, svæfingavél sem kostar um 11 milljónir.

„Fullar bjartsýni ákváðum við því að halda á með söfnunina og safna fyrir slíku tæki líka. Þetta er brött brekka fyrir lítið félag en alls ekki of brött fyrir vestfirska samfélagið sem stendur sérlega þétt saman í dag,“ segir Tinna og bendir á að nú þegar hafi safnast um 12,7 milljónir samtals í þessi verkefni og markmiðið séu 20 milljónir króna.

„Við lögðum upphaflega af stað með að safna rúmum 7 milljónum fyrir tveimur BiPap ytri öndunarvélum, önnur verður staðsett á Patreksfirði og hin á Ísafirði. Okkur óraði ekki fyrir því að þetta myndi takast á 18 klukkustundum, en þegar við sáum hvernig þetta var að þróast þá ákváðum við að halda áfram og kaupa til viðbótar súrefnissíur. Við sáum strax að þessi söfnun snertir okkur öll, við erum jú öll Vestfirðingar á einhvern hátt,“ bætir hún við.

Hún viðurkennir að þetta sé mjög stórt verkefni. „En við höfum óbilandi trú á vestfirsku samfélagi, hjörtun okkar slá í takt. Við erum öll í þessu saman og þegar við gerum hlutina saman þá getum við einfaldlega allt.“

Það eru einstaklingar, fyrirtæki, félög og aðrir velunnarar sem hafa lagt söfnuninni lið síðastu sólarhringana og fyrir það eru þær vinkonurnar afar þakklátar.